Upplýsingatækni

UTis2017

Um helgina sótti ég UTis2017 sem er alveg einstakur viðburður og haldinn á Sauðárkróki. Það er Ingvi Hrannar kennsluráðgjafi í Skagafirði og kennarar í Árskóla sem bera hitan og þungan af skipulagning viðburðarins. Það hlýtur að teljast stórvirki að geta safnað saman eina helgi um hávetur öllum helstu upplýsingatækninördum landsins. Dagskrá UTis2017 má sjá hér, en það var eins og sjá má mikið í boði. Það kemur ekki fram í dagskránni, en það var skemmtilegt uppbrot reglulega á dagskránni þar sem reynt var að fá þátttakendur til þess að kynnast. Þannig átti ég mér margskonar vini, t.d. „High five“ vin sem ég átti alltaf að heilsa og hitta reglulega til þess að ræða um það sem ég taldi áhugavert. „Like“ vin sem ég sendi merki annað slagið og hitti líka til þess að leysa þraut með. Þetta var rosalega góð leið til þess að fólk blandaði geði við aðra og ég kynntist þarna t.d. kennara sem býr í nágrenni við mig og kennir í sama bæjarfélagi.

Það sem mér fannst hvað áhugaverðast þarna á UTis2017 var vinnustofa sem ég sótti á föstudeginum. Það var Jessica Loucks frá Bretlandi sem stóð fyrir vinnustofu fyrir byrjendur í Breakout EDU, en það gengur út á að kassa/kössum er læst með mörgum lásum. Út um alla skólastofuna voru faldar vísbendingar sem þátttakendur geta notað til þess að opna kassana/lásana. Þetta var sérlega skemmtileg verkefni sem hentar öllum aldri. Jessica veitti okkur aðgang að miklu efni og benti á fésbókarhópa þar sem kennarar eru að deila með sér hugmyndum af leikjum til þess að nota í Breakout. Hér má sjá kynningu Jessicu, en þar er að finna margar áhugaverðar slóðir að efni. Jessica var afar líflegur kennari og við hrifumst svo sannarlega með. Hún sýndi mér fram á að það er hægt að fara í Breakout með mjög ungum börnum. Hún kenndi okkur m.a. að nýta google form til þess að búa til vísbendingar fyrir ung börn. Það er ekki spurning að ég mun einhvern daginn leggja í þennan leik með leikskólabörnunum mínum. Hér má sjá smá brot af því sem gerðist á UTis2017.