Upplýsingatækni

Computational thinking

Í eTwinning-vinnustofunni í Lapplandi hélt Alexandra Serra kennsluráðgjafi frá Ítalíu erindi. Hún talaði um mikilvægi þess að leikskólakennarar kynni sér það sem nefnt er á ensku computational thinking og mætti mögulega kalla tölvuhugsun eða rökræna greiningu á íslensku en um er að ræða lausnaleit og greiningu með rökrænni hugsun á borð við þá sem beitt er við forritun eða tölvutengd úrlaunarefni. Hugmyndin að baki þessu er að nemendur vinni saman að því að leysa krefjandi verkefni sem eiga að vera hvort tveggja í senn, skemmtileg og reyna á greinandi hugsun eins og þá sem notuð er við viðfangsefni sem fást má við með forritun. Mér fannst þetta afar áhugavert og hafði ekki hugsað út í þessa hluti áður. Seymour Papert (1980) mun hafa nefnt hugtakið fyrstur og Jeannette M. Wing (2006) lýsti því vel fyrir rúmum áratug og sagði það snúast um leið til að leysa vandamál eða þraut, hanna kerfi og skilja mannlega hegðun. Hún heldur því fram að greinandi hugsun á þessum nótum sé grundvallarkunnátta fyrir alla, ekki bara fyrir vísindamenn eða tölvunarfræðinga. Hún sagði þessa tölvuhugsun eða rökræna greiningu, á ensku computational thinking, jafn mikilvæga hæfni og læsi, ritfærni eða reiknikunnáttu. Hægt er að kynna sér betur Computational thinking hér. Það var áhugavert að uppgötva þegar heim var komið að það hafði einmitt á sama tíma og við vorum í vinnustofunni verið umfjöllun um þetta efni á RUV, þættirnir Tungumál framtíðarinnar.