Samfélagsmiðlar, Upplýsingatækni

eTwinning netráðstefna- Cultural Heritage

Á laugardaginn 20. október tók ég þátt í netráðstefnu á vegum eTwinning. Í ár er þema eTwinning Cultural Heritage eða menningararfurinn. Á ráðstefnunni voru kynnt fjölmörg eTwinning verkefni sem öll áttu það sameiginlegt að fjalla á einhvern hátt um menningararfinn. Það var afar áhugavert að hlusta á þá sem töluðu og mér fannst með ólíkindum hversu fjölbreytt verkefnin voru og hugsaði oft til þess hversu frábært það væri að geta sem kennari myndað samstarf við aðra kennara úti í veröldinni. Ég fékk margar góðar hugmyndir sem ég held að geti nýst mér í starfi mínu sem leikskólakennari. Nokkrir kennarar voru búnir að setja upp verkefni sem þeir vilja vinna að á þessu skólaári, en vantaði samstarfsfélaga. Ég reyndi eftir fremsta megni að deila efni ráðstefnunnar jafnóðum með íslenskum kennurum. Gerði það bæði á Facebook og Twitter undir myllumerkjunum #etwinning og #menntaspjall. Vonandi hefur einhver íslenskur kennari áhuga á að bætast í hópinn. Hér fyrir neðan er ljósmynd sem vakið hefur hvað mesta athygli, en þetta er endurnýting á CD diskum. Þarna er ofið utanum diskana með litríku garni, hugmynd sem kom frá Afríku.