Upplýsingatækni

OSMO í kennslu

Unnur Valgeirsdóttir opnaði nýlega frábæran vef fyrir kennara um forritunarverkfærin OSMO. Osmo er margverðlaunað leikja- og kennslutæki fyrir iPad og iPhone. Til að geta notað Osmo þarf að kaupa stand (base) fyrir iPad eða iPhone og honum fylgir lítill spegill sem settur er yfir myndavélina. Spegillinn nemur það sem gert er fyrir framan skjáinn hvort sem það er með penna, hreyfingu, kubbum, bók- eða tölustöfum.

Forritin sem fylgja tækinu eru ókeypis og þau er hægt að sækja á App Store.

Hægt er að spila margskonar leiki: Coding Awbie, Coding Duo, Coding Jam, Detective Agency, Hot Wheels Mindracers, Masterpiece, Monster, Newton, Numbers, Pizza Co., Super Studio, Tangram og Words. Feitletruðu leikina er einungis hægt að spila með því að kaupa pakka með aukahlutum. Auðvelt er að setja Osmo upp og byrja að nota leikina.

Það sem gerir Osmo leikina sérstaka er að í þeim er leikið með áþreifanlega hluti, notandinn handleikur kubba, tölu- og bókstafi, skriffæri og fleira til að hafa áhrif á það sem gerist á skjánum. Í leikjunum er m.a. hægt að púsla saman myndum úr formum, vinna með stafi, orð og tölur, þjálfa fínhreyfingar og rökhugsun, forrita, teikna, skapa og gera tilraunir.

Osmo er hannað fyrir börn á aldrinum frá 5-13 ára en bæði yngri og eldri einstaklingar hafa gaman af að spreyta sig. Leikirnir efla hreyfifærni, skilningarvitin og sköpun auk þess sem þeir þjálfa rökhugsun, hljóðkerfisvitund, orðaforða, stærðfræði, samvinnu og samskipti.

Takk kærlega Unnur fyrir frábæran vef.