Facebook

Í upphafi var megintilgangur herbergisfélaganna Mark Zuckerberg og Eduardo Saverin með gerð Facebook að skapa netsamfélag, tengslanet til þess að halda utan um félagslega þátttöku í Harvard háskólanum í Bandaríkjunum.  Facebook var stofnuð 4. febrúar 2004. Háskólanemarnir vildu nýta þetta samfélag til samskipta sín á milli, viðhalda vinasamböndum að námi loknu, kynnast nýjum samnemendum og svo miðla einu og öðru sín á milli. Í fyrstu voru það eingöngu nemar í Háskólanum og í nágrenni Boston sem fengu aðgang inn á Facebook og var gerð sú krafa að viðkomandi væri nemi og ekki hægt að nota netföng nema þau kæmu frá skólum. Í september 2006 var svo opnað fyrir að almenningur þrettán ára og eldri gæti skráð sig inn á Facebook og vinsældir hennar urðu fljótlega geysi miklar. Í dag er samkvæmt Zephoria talið að rúmlega 2.07 billjónir manna um allan heim séu skráðir inn á Facebook.

Á heimasíðu SKÝ, Skýrslutæknifélags Íslands má fræðast um sögu samfélagsmiðlanotkunar hér á landi og í ágætri grein í Netlu, eftir þær Önnu Guðrúnu Sigurvinsdóttur og Sólveigu Jakobsdóttur, Fésbók í skólastarfi, Boðin og bannfærð? er fjallað um sögu notkunar á Facebook í skólastarfi. Frá því að þær skrifuðu grein sína árið 2010 hefur átt sér stað mikil breyting á notkun miðilsins. Facebook skipar í dag stórann sess í mörgum skólum á Íslandi, á öllum skólastigum og skólagerðum. Skólarnir nýta sér Facebook  til þess að koma upplýsingum til skila til foreldra og jafnvel að foreldrahópar komi sér saman um síðu til þess að hafa samskipti sín á milli.
Kennarar hafa einnig farið að nýta sér Facebook í auknum mæli til starfsþróunar. Margir hópar hafa myndast og eru kennarar og aðrir áhugasamir mjög virkir í að miðla efni sín á milli og leita aðstoðar annarra ef þarf. Kennari sem er að leita að ákveðnu efni getur sett fram spurningu í slíkum hópi og verið búin að fá geysimörg gagnleg svör innan klukkustundar. Það er því orðið staðreynd að hægt er að nýta sér Facebook til starfsþróunar með einföldum og skjótvirkum hætti.

Hér á eftir mun ég tengja í nokkra hópa sem tengjast upplýsingatækni í skólastarfi og ég get mælt með að kennarar gangi í til þess að auka þekkingu sína á upplýsingatækni námi og kennslu.UT-torg

UT-torg styður við notkun upplýsingatækni í námi og kennslu, símenntun skólafólks og upplýsingamiðlun um tækni- og skólaþróun. Um er að ræða deilisíðu frá heimasíðu Upplýsingatæknitorgs sem er ein af undirsíðum Menntamiðju. Þarna er yfirleitt verið að benda á það nýjasta sem er að gerast á þessu sviði. Einnig er bent á ýmislegt fræðilegt efni, bæði erlent og innlennt.

Upplýsingatækni í skólastarfi
Í þessum hópi er fólk að deila með öðrum því helsta sem þeir hafa lært, vilja læra eða hafa nýlega uppgötvað í upplýsingatækni í skólastarfi. Þarna er einnig látið vita af því sem er á döfinni á þessu sviði. Kennarar eru óhræddir við að leita aðstoðar í þessum hópi ef þeir eru strand með t.d. ákveðin forrit eða finna ekki efni sem þeir hafa áhuga á.

Spjaldtölvur í námi og kennslu
Hópur sem stofnaður var af áhugasömum kennurum um notkun spjaldtölva í skólastarfi. Í þessum hópi leita kennarar mikið eftir aðstoð við að finna heppileg smáforrit til þess að nýta í ákveðinni kennslu. Þá er nokkuð um að fólk miðli af þekkingu sinni af ákveðnum smáforritum eða kennsluaðferðum.

Spjaldtölvur í grunnskólum Kópavogs
Eins og nafnið gefur til kynna er þessi lokaði hópur stofnaður í kringum innleiðingu á spjaldtölvum í grunnskólum Kópavogs. Í þessum hópi er vísað á margskonar gagnlegt efni sem kennarar geta nýtt sér í kennslu.

Smáforrit í sérkennslu
Þessi hópur er nátengdur Sérkennslutorgi og miðlar m.a. efni frá því. Í hópnum deila kennarar sem margir hverjir starfa við sérkennslu reynslu sinni af notkun smáforrita í kennslu. Ábendingar eru um nýútkomin smáforrit og einnig eru kennarar að óska eftir upplýsingum um smáforrit sem þeir geta notið til þess að efla ákveðna þroskaþætti barna.

Borgaravitund
Þessi hópur varð til í kringum þátttakendur á námskeiði um stafræna borgaravitund, en hópurinn er opinn öllum sem hafa áhuga á stafrænni borgaravitund og ábyrgri netnotkun. Það ættu sennilega allir kennarar að hafa áhuga á því efni.

Opið menntaefni
Hópur áhugasamra um opið menntaefni, en hópurinn er misvirkur. Þangað er þó alltaf hægt að leita álits og aðstoðar þegar kemur að umfjöllun um opið menntaefni eða leiðbeiningar um hvernig er best að merkja opið menntaefni. Í hópnum eru sérlega áhugasamir kennarar og þeir koma yfirleitt alltaf með skjót svör.

TMF tölvumiðstöð
Það er alltaf eitthvað nýtt á þessari síðu tölvumiðstöðvar. Þetta er reyndar Like síða, en engu að síður rétt að benda á hana af því að þar geta kennarar fengið margvíslegar upplýsingar um upplýsingatækni í kennslu. TMF tölvumiðstöð stendur fyrir margskonar námskeiðum á smáforritum sem eru mjög áhugaverð fyrir alla kennara.

Kóðað til góðs
Hópur áhugasamra kennara um forritun í skólastarfi. Þarna eru áhugasamir forritarar, kennarar og fl. að benda á hentug forrit til þess að nota í námi og kennslu nemenda á öllum skólastigum. Þetta er opinn hópur og hver sem er getur gengið í hann.

Makerspaces á Íslandi
Þetta er nýlegur opinn hópur áhugasamra kennara um gerver, snjallver eða hvað skal kalla þær. Nú eru að nokkrir grunnskólar að koma sér upp svæði innan skólana þar sem nemendur hafa að gang að skapandi efni og upplýsingatækni allt í bland. Í hópnum er fjallað um gerver með fjölbreyttum hætti og skólarnir segja reglulega frá því sem er að gerast.

Kennsluráðgjöf
Í þessum áhugaverða hóp er það aðallega Bergþóra Þórhallsdóttir sem er að miðla áhugaverðu efni um upplýsingatækni í skólastarfi. Hún segir frá því sem er á döfinnig og er óspör á að birta upplýsingar um viðburði sem hún sækir og varða upplýsingatækni.

Apps til børn og voksne med specielle behov
Hópur Norrænna áhugamanna um smáforrit. Flestir í hópnum eru Danir, enda stofnuðu þeir hópinn. Þarna er skipst á upplýsingum um smáforrit sem henta fólki á öllum aldri. Það hefur verið mjög áhugavert að fylgjast með í þessum hóp og stundum fær maður fyrst upplýsingar um smáforrit sem hægt er að nota hér á landi.

iPads i skola och förskola
Allir sem vilja miðla af reynslu sinni af spjaldtölvum í námi og kennslu eru velkomnir í þennan sænska hóp. Það er margt áhugavert sem kemur fram í hópnum, ábendingar á smáforrit og ýmsar leiðir í kennslufræði líka.

Skolappar.nu
Er hópur þar sem Svíar skiptast á upplýsingum um smáforrit sem henta í skólastarfi. Hópurinn er ekki síður vinsæll hjá foreldrum, sem leita upplýsinga um heppileg forrit fyrir börnin sín.

Pappasappar.se
Þessi fésbókarsíða er deilisíða frá vefsíðunni Pappasappar. Síða þar sem foreldrar og kennarar í Svíþjóð setja inn ábendingar á smáforrit sem henta í námi og kennslu. Hverju og einu smáforriti fylgir umsögn og leiðbeiningar.

Rafrænt nám í Brekkuskóla
Hér er hópur kennara í grunnskóla á Akureyri að feta sig áfram með notkun á upplýsingatækni í skólastarfi. Frábært að fylgjast með nálgun þeirra og tilraunum með hitt og þetta með nemendum.

SAMSPIL 2015 og 2018
Þetta er hópur sem stofnaður var í kringum námskeið áhugasamra kennara í upplýsingatækni árið 2015. Hópnum hefur verið haldið við og þar birtast uppýsingar um ýmislegt sem er á döfinni og þar er líka hægt að setja inn upplýsingar um eitt og annað sem varðar uppýsingatækni í skólastarfi.