Samfélagsmiðlar, Upplýsingatækni

eTwinning netráðstefna- Cultural Heritage

Á laugardaginn 20. október tók ég þátt í netráðstefnu á vegum eTwinning. Í ár er þema eTwinning Cultural Heritage eða menningararfurinn. Á ráðstefnunni voru kynnt fjölmörg eTwinning verkefni sem öll áttu það sameiginlegt að fjalla á einhvern hátt um menningararfinn. Það var afar áhugavert að hlusta á þá sem töluðu og mér fannst með ólíkindum hversu fjölbreytt verkefnin voru og hugsaði oft til þess hversu frábært það væri að geta sem kennari myndað samstarf við aðra kennara úti í veröldinni. Ég fékk margar góðar hugmyndir sem ég held að geti nýst mér í starfi mínu sem leikskólakennari. Nokkrir kennarar voru búnir að setja upp verkefni sem þeir vilja vinna að á þessu skólaári, en vantaði samstarfsfélaga. Ég reyndi eftir fremsta megni að deila efni ráðstefnunnar jafnóðum með íslenskum kennurum. Gerði það bæði á Facebook og Twitter undir myllumerkjunum #etwinning og #menntaspjall. Vonandi hefur einhver íslenskur kennari áhuga á að bætast í hópinn. Hér fyrir neðan er ljósmynd sem vakið hefur hvað mesta athygli, en þetta er endurnýting á CD diskum. Þarna er ofið utanum diskana með litríku garni, hugmynd sem kom frá Afríku.

Sérkennsla, Upplýsingatækni

Myndir lifna við

Það kemur fyrir að hvetja þarf sérstaklega einstaka börn í leikskólanum til þess að efla fínhreyfingar sínar, þau eru t.d. ekki alveg búin að ná aldurssvarandi gripi um skriffæri. Í morgun ákvað ég að nota upplýsingatæknina sem hvata til þess að fá nokkur börn til þess að lita fyrir mig myndir. Börnin voru afar misjafnlega á vegi stödd hvað varðar fínhreyfifærni, en það kom ekki að sök því öll fengu þau að sjá myndirnar sínar lifna við með aðstoð smáforritsins Quiver (ókeypis) og það fannst þeim nú ekki leiðinlegt. Það er alltaf jafngaman fyrir mig sem kennara að fylgjast með undrun barnanna þegar fuglinn þeirra, bíllinn og fl. fara á hreyfingu. Hér á heimasíðu Quiver er hægt að prenta út myndir til þess að lita.

Sérkennsla, Upplýsingatækni

eTwinning viðurkenning

Ég hef áður sagt frá því hér á síðunni að ég fór til Finnlands fyrir ári síðan á vinnustofu á vegum eTwinning. Þar var lögð áhersla á forritun í kennslu leikskólabarna. Í vinnustofunni stofnuðum við fimm kennarar frá þremur löndum verkefni sem við unnum að á vorönninni, frá janúar til maí 2018. Verkefnið fékk heitið Brave children learning to code. Eins og alltaf var sérlega ánægjulegt að taka þátt í þessu eTwinningverkefni. Ég gerði hlé á þátttöku minni í eTvinningverkefnum á meðan að ég var að vinna fyrir leikskólakennara, en ég er semsagt komin á fullt í erlent samstarf núna. Í gær fengum við ég og börnin í Álfaheiði viðurkenningu frá eTwinnig svokallað gæðamerki fyrir þátttöku okkar í verkefninu. Það voru þrír leikskólar á Ítalíu og einn í Litháen sem voru þátttakendur auk okkar. Markmið verkefnisins var að kenna börnunum að forrita (e. code) og vinna í gegnum listir, landafræði, læsi, daglegt starf, náttúru, hátíðir og fleira. Við kynntum einnig fyrir börnunum lífið í mismunandi löndum, menningu og áhugaverða staði. Við lögðum áherslu á skapandi vinnu á margvíslegan hátt.

Upplýsingatækni

Alþjóðadagur kennara

Alla jafna hefði ég sett inn á samfélagsmiðla færslur úr leikskólastarfinu í dag, en núna vildi svo til að ég var með fullorðins nemendur. Annasamri viku lokaði ég með því að bruna á Húnavelli í Austur Húnavatnssýslu. Þar var mikið fjör og mikið gaman á haustþingi 5 deildar FL. Ég var með tvær vinnustofur þar sem ég kynnti Fikt og kenndi á þrjú smáforrit, Chatter Pix Kids, Puppet Pals og svo Book Creator. Nemendur mínir voru sérlega áhugasamir og skemmtilegt að kenna þeim. Takk kærlega fyrir mig.

Upplýsingatækni, Útikennsla

Upplýsingatækni í Furugrund

Þvílíkt líf og fjör í morgun þegar boðið var upp á smiðjuvinnu í leikskólanum Furugrund kl. 9-10:30. Boðið var upp á átta smiðjur, tveir kennarar voru með hverja smiðju fyrir sig og börnin fóru á milli 3-4 saman, þannig fór hvert og eitt barn í þrjár smiðjur á eldri deildunum. Sjö barna hópur pilta fór í ratleik í Fossvogi með aðstoða QR kvóða líkt og stúlkurnar fóru í síðustu viku. Á yngri deildunum var boðið upp á jóga og núvitund með 2-3 ára börnum. Á eldri deildunum var boðið upp á OSMO í fernskonar viðfangsefnum, Roboat Mouse í þremur útgáfum, hreyfimyndagerð með Stop MotionMakey Makey, Chatter Pix smáforritið og Let‘s go Code. Gestirnir sem öll eru leikskólakennarar voru afar áhugasamir og fannst það stórkostlegt hversu fjölbreytt verkefni var hægt að bjóða börnunum upp á. Gestirnir sem fóru í ratleikinn í Fossvogi voru líka mjög ánægðir og höfðu ekki upplifað slíkt áður. Allir gestirnir sem voru inni í leikskólanum höfðu tækifæri á að horfa einnig á yngri börnin í núvitund og jóga. Það fannst þeim stórkostlegt. Börnin, já börnin þau skemmtu sér konunglega og höfðu orð á því hversu gaman hefði verið og sum þeirra voru sérlega stolt af eigin afrekum, sérstaklega í hreyfimyndagerðinni. Hér er ein hreyfimynd Risaeðluheimilið og önnur sem heitir SMASH!

Samfélagsmiðlar, Upplýsingatækni

Nú geta foreldrar fylgst með spjaldtölvunotkun barnanna

Nýjastu uppfærslu IOS 12 í Apple tækjum fylgja nokkrar innbyggðar aðgerðir sem vert er að benda foreldrum á. Þessar aðgerðir eru hannaðar til þess að hjálpa þér að einbeita þér, takmarka truflun, fylgjast með notkun IOS tækisins og fá betri skilning á því hvernig þú notar tímann þinn allan daginn. Svo er upplagt líka að kynna sér þessa síðu þar sem margar áhugaverðar ábendingar og trix er að finna.

Upplýsingatækni

Hreyfimyndagerð

Leikskólinn Furugrund er með 24 leikskólakennara í heimsókn frá fimm löndum, þátttakendur í Erasmus+ verkefninu Be a master, think creatively  þessa viku og það er ánægjulegt að fá að taka þátt í þessu verkefni með þeim. Ég stýrði m.a. skemmtilegri vinnustofu í morgun. Byrjaði á því að segja þeim frá reynslu minni á því að nýta upplýsingatækni í leikskólum og síðan fengu gestirnir að leika sér í hreyfimyndagerð. Það var svakalega gaman að fylgjast með þeim takast á við verkefnið og afraksturinn varð fimm bráðsniðugar hreyfimyndir. Við notuðum smáforritið Stop Motion sem ung börn eiga sérlega auðvelt með að læra á. Hér má sjá nokkrar myndir frá því í morgun.

Útikennsla

Ratleikur í Fossvogi

Í dag prófuðum við Karólína og Lovísa Rut nýjan ratleik í Fossvogi. Við vorum m.a. að undirbúa ERASMUS+ fund sem verður í næstu viku í Furugrund. Einn liðurinn af mörgum verður að fara með börn og gesti í ratleik í Fossvogi. Vegna ungs aldurs barnanna reyndum við að gera ratleikinn þannig að þau gætu sem mest gert sjálf. Útbjó ég kort með aðstoð Google maps og skrifaði inn á það tölustafi þar sem börnin áttu að finna spjöld með QR kóðum. Sem útbúnir voru með aðstoð QR Code Generator. Með því að skanna QR kóðana fengu börnin verkefni til að leysa á hverjum stað fyrir sig og var það hlutverk kennaranna að lesa skilaboðin sem á bak við kóðana voru. Þetta voru eftirfarandi verkefni; gera vatnstilraun, byggja 2 og 2 saman hús og taka af því ljósmynd með iPadinum, hvíla sig og segja brandara (fílabrandarar fylgdu með í bakpokanum) fylla 2 flöskur af vatni og svo í lokinn að grilla sykurpúða og nota svo vatnið í flöskunum til þess að slökkva eldinn. Allt sem til þurfti var í bakpokanum. Ratleikurinn mátti ekki taka lengri tíma en 90 mínútur og stóðst það alveg. Við vorum ekkert að flýta okkur og vorum um 80 mínútur í leiknum. Viðfangsefnin voru mátulega erfið, en erfiðasta verkefnið reyndist vera það sem við héldum í upphafi, en það var að fylla flöskurnar að vatni. Ratleikurinn reyndist hin mesta skemmtun og voru allir þátttakendur, sem í þetta sinn voru átta stúlkur, afar ánægðir í lok leiksins. Það fengu allir að vera í hlutverki við að skanna QR kvóðana, halda á kortinu og svo frv. Gaman var að heyra stúlkurnar minna hvor aðra á að þetta væri samvinna nokkrum sinnum í leiknum. Við vonum að ratleikurinn geti komið að gagni fyrir fleiri skóla í nágrenni dalsins. Hér fyrir neðan má sjá myndir sem ég tók á meðan á ratleiknum stóð.

Samfélagsmiðlar, Upplýsingatækni

Flipgrid ókeypis

Flipgrid er vefsvæði og líka smáforrit þar sem hægt er að taka upp stutt myndbönd um efni eða efnisþætti sem fjallað er um hverju sinni. Það sameinar kosti samfélagsmiðla við nám og kennslu. Gæta þarf þess að setja efnið fram á skipulegan hátt þannig að auðvelt sé fyrir nemendur að rata um Flipgrid-ið og líka einfalt fyrir kennarann sjálfan í úrvinnslu. Hægt er að stilla verkefni og skilum nemenda þannig að nemendur geti svarað hver öðrum og gefið hver öðrum endurgjafir eða spurt spurninga. Hægt er að fylgja framleiðendum eftir á Twitter til þess að fá hugmyndir um notkun þess, en nokkuð margir kennarar hér á landi eru farnir að vinna í samvinnu við heimilin að nýta Flipgrid við skil verkefna og heimalesturs. Hér er hægt að horfa á kennslumyndband um notkun á Flipgrid.

Upplýsingatækni

Upplýsingatækni i leikskólum

Ég er afar stolt af henni dóttur minni Sunnevu Svavarsdóttur sem kemur fram í myndbandi fyrir Skóla- og frístundsvið Reykjavíkur. Hún hefur verið ásamt samstarfsfólki í leikskólanum Reynisholti að innleiða upplýsingatækni í skólastarfið. Næsta skólaár ætlar hún að vinna að starfendarannsókn um eigið starf og upplýsingatækni með yngstu börnunum í leikskólanum, sem verður jafnframt meistaraverkefnið hennar í leikskólafræðum.

Leikskólinn á Reynisholti | Upplýsingatækni

Í mörgum leikskólum borgarinnar er unnið markvisst með upplýsingatækni. Börnin í Reynisholti byrja snemma að fikta við tækin í leik og starfi. Sunneva Svansdóttir er leikskólakennari í Reynisholti. 💡

Posted by Skóla- og frístundasvið on Fimmtudagur, 14. júní 2018