Pinterest

Pinterest er skemmtilegur miðill og hefur notið mikilla vinsælda og þá sérstaklega á meðal kvenna. Það gæti verið vegna þess hversu myndrænt Pinterest er, en það er meðal vinsælustu samfélagsmiðla í heimi.  Pinterest er einskonar myndræn tilkynningatafla (bulletin board) þar sem þú getur skellt inn þeim myndum sem þér þykja áhugaverðar t.d. ef þú sérð áhugaverða mynd sem tengist áhugamáli þínu, starfi eða hvaðeina sem er. Þú einfaldlega smellir á myndina og skellir myndinni á töfluna þína. Á bak við myndina er svo krækja á heimasíðu sem vistar myndina og um leið áhugaverðar upplýsingar fyrir þig. Þetta snýst um að „pinna“ myndir á töfluna þína.

Leit
Í Pinterest er mjög öflug leit. Þú einfaldlega skrifar inn leitarorð og samtímis birtast ótal myndir sem vísa hugsanlega á það sem þú ert að leita að. Þegar þú hefur fundið það sem þú heillast af þá smellir þú á hnappinn með pinnanum og vistar á þína töflu.

Pinni (pin): Pinni er mynd sem þú smellir á þegar þú hefur fundið það sem þér þykir áhugavert. Þá ert þú að pinna/vista myndina annaðhvort með því að vísa á vefsíðuna þar sem þú fannst hana eða með því að upphala henni af tölvunni þinni.

Endurpinni (repin): Þegar einhver hefur sett inn pinna á töfluna sína getur hver sem er endurpinnað hann á sína töflu. Þannig getur einn pinni náð töluvert mikilli dreifingu á stuttum tíma. Þannig að ef þú sérð einhver flottan pinna, deildu honum endilega með vinum þínum.

Taflan (board): Hér getur þú séð alla pinnana þína. Það er hægt að flokka pinnana niður eftir áhugamáli, matargerð, bílar, mismunandi flokkun í menntun og skólastarfi t.d. hef ég flokka eins og iPad, skapandi skólastarf, verkefni í útikennslu, vísindi í leikskólastarfi og ótal fleiri flokka.  Eins og á öðrum samfélagsmiðlum þá getur þú fylgt eftir fólki með svipuð áhugamál og smellir þá á hnappinn fylgja (follow). Það hefur svo áhrif á útlit töflunnar þ.e. heimasvæðið þitt er búið til úr pinnum frá þeim sem þú fylgir. Það er hægt að tengja Pinterest við Facebook og þannig finnur þú hvort vinir þínir þar eru með Pinterestsíðu.

Hér eru góðar leiðbeiningar sem Hildur Rudolfsdóttir kennsluráðgjafi í Garðaskóla í Garðabæ hefur gert fyrir þá sem vilja nota Pinterest.

Stillingar og valmöguleikar

Í þessu myndskeiði er farið almennt yfir innskráningu og stillingar á Pinterest. Myndskeiðið er 2 mínútur.

Að búa til nýtt borð

Í þessu myndskeiði má sjá hvernig hægt er að búa til nýtt borð á Pinterest og breyta stillingum þess. Myndskeiðið er 1.17 mínútur.

Að bæta við efni

Í þessu myndskeiði er farið yfir þær leiðir sem hægt er að nota til að bæta við efni á Pinterest borð: af Pinterest, af annarri vefsíðu eða úr tölvu. Myndskeiðið er 2 mínútur.

Flýtileið í vafrann

Í þessu myndskeiðii er sýnt hvernig hægt er að bæta við Pinterest flýtileið í Chrome-vafra. Myndskeiðið er 1 mínúta.