Upplýsingatækni

Vatnsendaskóli

Það var mjög fjölmennt á viðburðinum #kopmennt Menntabúðum í Vatnsendaskóla núna síðdegis. Ég hefði gjarnan viljað hitta leikskólakennara þarna, en þeir eru því miður enn við störf í leikskólanum þegar #kopmennt hófst kl. 15. Ég kynnti námsvefinn minn Fikt, fékk mér kaffi og ávexti og spjallaði við kollega mína úr ýmsum grunnskólum Kópavogs, Garðarbæjar og Breiðholts. Svo gafst mér tækifæri á að líta inn í unglingadeildina og þar er heldur betur búið að aðlaga skólastofur að breyttum kennsluháttum. Mjög notalegt hjá unglingunum á Vatnsenda.

Sérkennsla, Upplýsingatækni

Fikt námsvefurinn kynntur

Í morgun fór ég á fund með sérkennslustjórum í Breiðholti. Bergljót Guðmundsdóttir (Systa) vinkona mín og sérkennsluráðgjafi í Breiðholtinu bað mig um að koma og ræða um upplýsingatækni í leikskólastarfi við sérkennslustjórana. Þar sem ég var ekki alveg viss um það hvað fólk vildi heyra ákvað ég að leyfa þeim að velja um nokkur viðfangsefni. Til þess notaði ég Mentimeter sem er frábært vefverkfæri til þess að útbúa gagnvirkar kynningar.
Það var ánægjulegt fyrir mig að sérkennslustjórarnir höfðu mestan áhuga á að fá kynningu á Fikt námsvefnum mínum.

 

 

 

 

 

 

Hér fyrir neðan má sjá mynd frá fundi okkar sem haldinn var í Gerðubergi. Ég fékk margar góðar hugmyndir við það að skoða vefinn með sérkennslustjórunum. Ég held að ég muni vinna að því fljótlega að setja inn meira efni sem tengist upplýsingatækni í sérkennslu. Ég á fullt af efni, en svo get ég líka vísað mikið á efni sem til er á Sérkennslutorginu. Efni sem sérkennarar margir vita ekki um.

Samfélagsmiðlar, Upplýsingatækni

Vorblót og menntabúðir

Síðdegis í dag tókum við dóttir mín Sunneva Svavarsdóttir (leikskólakennaranemi) og synir hennar þátt í menntabúðum. Þar voru þau að kynna ýmislegt sem frístund, leik- og grunnskólar í Reykjavík geta fengið lánað hjá Mixtúru og skilað aftur. Þetta er alveg til fyrirmyndar hjá þeim á Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur. Þarna geta frístundir, leik- og grunnskólar fengið lánaða kassa með margskonar tæknibúnaði í til þess að prófa í ákveðinn tíma. Stofnanirnar geta svo fjárfest í búnaðinum sjálfir ef þeim líkar og sjá notagildið eða þá fengið hann aftur lánaðan þegar þörf er á. Ég hvet alla kennara til þess að heimsækja Mixtúru og kynna sér hvað er í boði hjá þeim. Þar er t.d. hægt að fara á margskonar námskeið í notkun á upplýsingatækni og fræðast um eitt og annað sem tengist upplýsingatækni.

Ég sjálf var á meðan þau léku sér með tæknidótið að kynna nýja námsvefinn minn Fikt. Var honum mjög vel tekið og skapaðist mikil umræða um eitt og annað sem er á vefnum. Ég hef nú sent út á samfélagsmiðla tilkynningu um tilurð hans og óskað eftir ábendinum um það sem betur má fara. Ég vil gjarnan að fólk sendi mér línu á netfangið fjolathorvalds@gmail.com