Sérkennsla, Upplýsingatækni

eTwinning viðurkenning

Ég hef áður sagt frá því hér á síðunni að ég fór til Finnlands fyrir ári síðan á vinnustofu á vegum eTwinning. Þar var lögð áhersla á forritun í kennslu leikskólabarna. Í vinnustofunni stofnuðum við fimm kennarar frá þremur löndum verkefni sem við unnum að á vorönninni, frá janúar til maí 2018. Verkefnið fékk heitið Brave children learning to code. Eins og alltaf var sérlega ánægjulegt að taka þátt í þessu eTwinningverkefni. Ég gerði hlé á þátttöku minni í eTvinningverkefnum á meðan að ég var að vinna fyrir leikskólakennara, en ég er semsagt komin á fullt í erlent samstarf núna. Í gær fengum við ég og börnin í Álfaheiði viðurkenningu frá eTwinnig svokallað gæðamerki fyrir þátttöku okkar í verkefninu. Það voru þrír leikskólar á Ítalíu og einn í Litháen sem voru þátttakendur auk okkar. Markmið verkefnisins var að kenna börnunum að forrita (e. code) og vinna í gegnum listir, landafræði, læsi, daglegt starf, náttúru, hátíðir og fleira. Við kynntum einnig fyrir börnunum lífið í mismunandi löndum, menningu og áhugaverða staði. Við lögðum áherslu á skapandi vinnu á margvíslegan hátt.

Upplýsingatækni, Útikennsla

Upplýsingatækni í Furugrund

Þvílíkt líf og fjör í morgun þegar boðið var upp á smiðjuvinnu í leikskólanum Furugrund kl. 9-10:30. Boðið var upp á átta smiðjur, tveir kennarar voru með hverja smiðju fyrir sig og börnin fóru á milli 3-4 saman, þannig fór hvert og eitt barn í þrjár smiðjur á eldri deildunum. Sjö barna hópur pilta fór í ratleik í Fossvogi með aðstoða QR kvóða líkt og stúlkurnar fóru í síðustu viku. Á yngri deildunum var boðið upp á jóga og núvitund með 2-3 ára börnum. Á eldri deildunum var boðið upp á OSMO í fernskonar viðfangsefnum, Roboat Mouse í þremur útgáfum, hreyfimyndagerð með Stop MotionMakey Makey, Chatter Pix smáforritið og Let‘s go Code. Gestirnir sem öll eru leikskólakennarar voru afar áhugasamir og fannst það stórkostlegt hversu fjölbreytt verkefni var hægt að bjóða börnunum upp á. Gestirnir sem fóru í ratleikinn í Fossvogi voru líka mjög ánægðir og höfðu ekki upplifað slíkt áður. Allir gestirnir sem voru inni í leikskólanum höfðu tækifæri á að horfa einnig á yngri börnin í núvitund og jóga. Það fannst þeim stórkostlegt. Börnin, já börnin þau skemmtu sér konunglega og höfðu orð á því hversu gaman hefði verið og sum þeirra voru sérlega stolt af eigin afrekum, sérstaklega í hreyfimyndagerðinni. Hér er ein hreyfimynd Risaeðluheimilið og önnur sem heitir SMASH!

Upplýsingatækni

Forritunarleikur

Í síðustu viku voru börnin að læra grunnatriði forritunar í þessum leik. Börnin hjálpast að við að koma einu barni á ákveðinn reit til þess að barnið geti fengið sér rúsínu. Kenndar eru skipanirnar fram, aftur, til hliðar, snúa til hægri og vinstri. Þessir snillingar fóru bara létt með þetta, það var helst að hægri og vinstri vafðist fyrir þeim. Leikurinn er eitt af framlögum okkar til eTwinningverkefnisins Brave children learning to code sem við erum í ásamt leikskólum frá Ítalíu og Letlandi.

Upplýsingatækni

Tæknidagur í leikskólanum Ösp

Föstudaginn 27. apríl s.l. var í annað sinn haldinn tæknidagur í leikskólanum Ösp í Breiðholti. Rakel Magnúsdóttir var leikskólanum innan handar við framkvæmd dagsins, en hún hefur verið ráðgjafi í upplýsingatækni í leikskólanum um hríð. Lögð var áhersla á að allir aldurshópar nytu sín. Dagurinn heppnaðist að sögn Rakelar frábærlega vel og var mæting foreldra framar vonum, einnig mættu gestir frá Skóla og frístundasviði Reykjavíkurborgar, talmeinafræðingar og starfsmenn frá öðrum leikskólum í hverfinu. Hægt er að fræðast um daginn í fréttabréfi sem útbúið var af þessu tilefni auk þess sem hægt er að sjá hvaða smáforrit voru kynnt. m.a. til málörvunar, stærðfræði og svo tæknileikföng sem fullorðnir og börn léku sér með. Þess má geta að tæknileikföngin voru flest fengin að láni hjá Mixtúru, en þar geta leik- og grunnskólar fengið lánuð ýmis námsgögn í upplýsingatækni. Til hamingju með þetta allt saman Rakel og starfsfólk í leikskólanum Ösp í Breiðholti. Hér fyrir neðan er ljósmynd sem Rakel tók á tæknideginum í leikskólanum Ösp.

Samfélagsmiðlar, Upplýsingatækni

Vorblót og menntabúðir

Síðdegis í dag tókum við dóttir mín Sunneva Svavarsdóttir (leikskólakennaranemi) og synir hennar þátt í menntabúðum. Þar voru þau að kynna ýmislegt sem frístund, leik- og grunnskólar í Reykjavík geta fengið lánað hjá Mixtúru og skilað aftur. Þetta er alveg til fyrirmyndar hjá þeim á Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur. Þarna geta frístundir, leik- og grunnskólar fengið lánaða kassa með margskonar tæknibúnaði í til þess að prófa í ákveðinn tíma. Stofnanirnar geta svo fjárfest í búnaðinum sjálfir ef þeim líkar og sjá notagildið eða þá fengið hann aftur lánaðan þegar þörf er á. Ég hvet alla kennara til þess að heimsækja Mixtúru og kynna sér hvað er í boði hjá þeim. Þar er t.d. hægt að fara á margskonar námskeið í notkun á upplýsingatækni og fræðast um eitt og annað sem tengist upplýsingatækni.

Ég sjálf var á meðan þau léku sér með tæknidótið að kynna nýja námsvefinn minn Fikt. Var honum mjög vel tekið og skapaðist mikil umræða um eitt og annað sem er á vefnum. Ég hef nú sent út á samfélagsmiðla tilkynningu um tilurð hans og óskað eftir ábendinum um það sem betur má fara. Ég vil gjarnan að fólk sendi mér línu á netfangið fjolathorvalds@gmail.com

 

Upplýsingatækni

Leikjadagur

Það var gaman í leikskólanum Reynisholti í dag. Starfsfólkið fékk að leika sér á skipulagsdegi og fræðast um möguleika upplýsingatækninnar. Við vorum þarna Rakel G Magnúsdóttir, Sunneva Svarsdóttir og ég með allskonar upplýsingatækni leikföng sem við fengum að láni hjá Mixtúru og eigum sjálfar. Við lögðum megin áherslu á forritunarleikföng, en hér má sjá hvaða leikföng þetta voru. Þetta var rosalega gaman.

Upplýsingatækni

Forritun

Ég hef verið að kenna elstu börnunum í leikskólanum fyrsta stig forritunar með Robot Mouse. Forritunarmúsin er tiltölulega ný á markaðum. Hún var kynnt fyrst á BETT-Show- upplýsingatækni í skólastarfi sýningu sem haldin er árlega í London. Verkefnin eru miserfið, en börnin hafa spjöld sér til aðstoðar. Viðfangsefnin reyna á samvinnu og rökhugsun svo um munar. Hægt er að kaupa hana núna á mjög hagstæðu verði um 7.000 kr. í ToyRus í Kringlunni. Við lékum okkur með nýju músina okkar í dágóða stund og börnin voru ekki lengi að skilja um hvað forritun snýst. Leikfanginu fylgir hjálpatæki eins og örvar til þess að minna á hvernig við getum matað músina af upplýsingum um það hvert við viljum að hún fari. Með samvinnu og hjálpsemi tókst börnunum að koma músinni í ostinn sinn, þó svo að sum borðin sem í boði voru væru mjög flókin. Þetta var frábærlega skemmtilegt sögðu þau í lok tímans.

Upplýsingatækni

Námskeið í forritun

Ég átti sérlega skemmtilegt kvöld með fyrrum samstarfsfólki mínu í leikskólanum Furugrund. Ég er svo stolt af þeim að halda ótrauð áfram að vinna með upplýsingatækni í skólastarfinu. Núna stendur til að hefja þátttöku í frábæru Erasmus + verkefni sem ber yfirheitið Be a master think creatively. Verkefnið felur m.a. í sér að starfsfólk leikskólans ætlar að læra með börnunum að forrita. Mitt hlutverk var að kenna þeim grunnatriði forritunar.  Í verkefninu þeirra verður unnið með einfaldasta form forritunar fyrir börn á leikskólaaldri, en það er forritun með og án verkfæra sem er ekki svo ólíkt því að fara í þrautakóng.  Þau smáforrit sem starfsfólkið mun aðallega læra á með börnunum eru t.d OSMO Coding og Scratch Jr, en svo munu þau nota mikið forritunarleikföng eins og litlu Býfluguna (Beeboot).  Ég er sérlega ánægð með starfsfólkið í leikskólanum í Furugrund vegna þess að þau eru að vinna frumkvöðlastarf með því að taka inn forritun í skólastarfið og verður áhugavert að fylgjast með vinnu þeirra. Eftir smá erindi þá héldum við vinnustofu þar sem allir fengu að reyna sig við mismunandi forritunarleikföng og læra á Scratch Jr. smáforritið. Það var rosalega gaman að koma í Furugrund og eiga með þeim kvöldstund.

Upplýsingatækni

Aftur til vinnu

Það var ljúft að komast aftur í kennslu í leikskólanum í dag. Námsleyfinu er lokið, þessir níu mánuðir voru fljótir að líða. Ég mun áfram kenna bæði sérkennslu og upplýsingatækni í leikskólanum Álfaheiði. Reyndar blanda ég þessu mikið saman, enda hvoru tveggja mitt áhugamál. Að vanda blogga ég um það sem við erum að vinna að á heimasíðu leikskólans svo það má fylgjast með okkur. Ég legg mikla áherslu á að kenna elstu börnunum á skapandi forrit í von um að þau noti iPadinn meira sem námsgagn í framtíðinni í stað afþreyingar. Þar sem að ég ákvað að vera með í eTwinningverkefninu Brave children learning to code Hugrakkir krakkar læra að forrita munum við einnig vinna að margskonar forritunarverkefnum á vorönninni. Svo verður að vanda ýmislegt annað skemmtilegt tekið fyrir líka. Fylgist með.

Upplýsingatækni

eTwinning-vinnustofa

Ég var svo heppinn að vera boðið á eTwinning-vinnustofu í Levi í Lapplandi í Finnlandi dagana 22. til 25. nóvember. Þangað fór ég ásamt Guðrúnu Kristjönu Reynisdóttur leikskólakennara frá leikskólanum Holti í Reykjanesbæ. Megin áhersla vinnustofunnar var Coding eða forritun með leikskólabörnum. Þetta var afar áhugaverð vinnustofa og ótal margt sem ég lærði þar. Það kom mér verulega á óvart hversu ítalskir leikskólakennarar eru komnir langt í forritun í leikskólum. Ég hitti þarna á vinnustofunni vinkonu mína sem ég vann með í Evrópuverkefnum á árunum 2006 til 2010. Hún var komin langt framúr mér í þessum efnum og hafði nýlega tekið við Evrópuverðlaunum fyrir eTwinningverkefni sem fjallaði um forritun með ungum börnum. Frábært að hitta hana og fá tækifæri á að læra af henni. Við Guðrún Kristjana notuðum millumerkið #etwinningisl á samfélagsmiðlum á meðan á vinnustofunni stóð og svo skrifuðum við bloggfærslu um ferðalagið hér á íslenska eTwinning blogginu.  Hér má sjá myndband frá vinnustofunni.