Upplýsingatækni

Námskeið í forritun

Ég átti sérlega skemmtilegt kvöld með fyrrum samstarfsfólki mínu í leikskólanum Furugrund. Ég er svo stolt af þeim að halda ótrauð áfram að vinna með upplýsingatækni í skólastarfinu. Núna stendur til að hefja þátttöku í frábæru Erasmus + verkefni sem ber yfirheitið Be a master think creatively. Verkefnið felur m.a. í sér að starfsfólk leikskólans ætlar að læra með börnunum að forrita. Mitt hlutverk var að kenna þeim grunnatriði forritunar.  Í verkefninu þeirra verður unnið með einfaldasta form forritunar fyrir börn á leikskólaaldri, en það er forritun með og án verkfæra sem er ekki svo ólíkt því að fara í þrautakóng.  Þau smáforrit sem starfsfólkið mun aðallega læra á með börnunum eru t.d OSMO Coding og Scratch Jr, en svo munu þau nota mikið forritunarleikföng eins og litlu Býfluguna (Beeboot).  Ég er sérlega ánægð með starfsfólkið í leikskólanum í Furugrund vegna þess að þau eru að vinna frumkvöðlastarf með því að taka inn forritun í skólastarfið og verður áhugavert að fylgjast með vinnu þeirra. Eftir smá erindi þá héldum við vinnustofu þar sem allir fengu að reyna sig við mismunandi forritunarleikföng og læra á Scratch Jr. smáforritið. Það var rosalega gaman að koma í Furugrund og eiga með þeim kvöldstund.

Upplýsingatækni

Aftur til vinnu

Það var ljúft að komast aftur í kennslu í leikskólanum í dag. Námsleyfinu er lokið, þessir níu mánuðir voru fljótir að líða. Ég mun áfram kenna bæði sérkennslu og upplýsingatækni í leikskólanum Álfaheiði. Reyndar blanda ég þessu mikið saman, enda hvoru tveggja mitt áhugamál. Að vanda blogga ég um það sem við erum að vinna að á heimasíðu leikskólans svo það má fylgjast með okkur. Ég legg mikla áherslu á að kenna elstu börnunum á skapandi forrit í von um að þau noti iPadinn meira sem námsgagn í framtíðinni í stað afþreyingar. Þar sem að ég ákvað að vera með í eTwinningverkefninu Brave children learning to code Hugrakkir krakkar læra að forrita munum við einnig vinna að margskonar forritunarverkefnum á vorönninni. Svo verður að vanda ýmislegt annað skemmtilegt tekið fyrir líka. Fylgist með.

Upplýsingatækni

eTwinning-vinnustofa

Ég var svo heppinn að vera boðið á eTwinning-vinnustofu í Levi í Lapplandi í Finnlandi dagana 22. til 25. nóvember. Þangað fór ég ásamt Guðrúnu Kristjönu Reynisdóttur leikskólakennara frá leikskólanum Holti í Reykjanesbæ. Megin áhersla vinnustofunnar var Coding eða forritun með leikskólabörnum. Þetta var afar áhugaverð vinnustofa og ótal margt sem ég lærði þar. Það kom mér verulega á óvart hversu ítalskir leikskólakennarar eru komnir langt í forritun í leikskólum. Ég hitti þarna á vinnustofunni vinkonu mína sem ég vann með í Evrópuverkefnum á árunum 2006 til 2010. Hún var komin langt framúr mér í þessum efnum og hafði nýlega tekið við Evrópuverðlaunum fyrir eTwinningverkefni sem fjallaði um forritun með ungum börnum. Frábært að hitta hana og fá tækifæri á að læra af henni. Við Guðrún Kristjana notuðum millumerkið #etwinningisl á samfélagsmiðlum á meðan á vinnustofunni stóð og svo skrifuðum við bloggfærslu um ferðalagið hér á íslenska eTwinning blogginu.  Hér má sjá myndband frá vinnustofunni.