Sköpun, Upplýsingatækni

Snillismiðjur

Árið 2017 fékk #VEXAedu styrk úr Sprotasjóði til að útbúa veflæga fræðslugátt og byggja upp lærdómssamfélag um Makerspaces í grunnskólum á Íslandi. Fræðslugáttin, sem var kölluð „Snillismiðjur“  og var unnin í samstarfi við Reykjavíkurborg og var gerð í vefsíðuforritinu Google Sites innan G-Suite kerfis borgarinnar.

Í fræðslugáttinni er að finna ýmsar hagnýtar upplýsingar fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna. Þar er bent á fjölbreyttar leiðir til starfsþróunar, innkaupalista, önnur lærdómssamfélög á samfélagsmiðlum, fræðsluefni samansafn af bókum og fræðigreinum. Einnig er að finna verkefnabanka sem #VEXAedu hópurinn hefur sett saman og þýtt í samstarfi við fræðsluveitur og höfunda. Verkefnabankinn verður reglulega uppfærður. Frábært framtak hjá þeim #VEXAedu konum. Takk fyrir.

Á bakvið #VEXAedu standa:

  • Anna María Þorkelsdóttir, kennsluráðgjafi Hörðuvallaskóla, Kópavogi
  • Bjarndís Fjóla Jónsdóttir, UT kennslufulltrúi Skrifstofu fræðslu- og frístundaþjónustu Hafnarfjarðar
  • Erla Stefánsdóttir, verkefnastjóri Mixtúru margmiðlunarvers Reykjavíkurborgar
  • Hildur Rudolfsdóttir, kennsluráðgjafi í tölvu- og upplýsingatækni í Garðaskóla, Garðabæ
  • Hugrún Elísdóttir, UT verkefnastjóri Grunnskóla Snæfellsbæjar
  • Rósa Harðardóttir, skólasafnskennari og UT verkefnastjóri Selásskóla, Reykjavík
  • Þorbjörg Þorsteinsdóttir, verkefnastjóri Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar.

Upplýsingatækni

Snillismiðja Hólabrekkuskóla

Í morgun fór ég að heimsækja Snillismiðju Hólabrekkuskóla í Breiðholti. Þar voru Anna María Þorkelsdóttir og Engilbert Imsland að kenna grunnatriði í rafleiðni. Börnin voru mjög áhugasöm, einbeitt og vönduðu sig mikið við vinnuna. Það var svo gaman að sjá brosin sem færðust yfir andlitin þegar þeim tókst að kveikja á perunni. Takk fyrir mig það var áhugavert að fá að kynnast starfinu ykkar.

Snillismiðja eins og þau eru með í Hólabrekkuskóla er ekki ósvipað Maker Spaces eins og slíkar smiðjur hafa verið nefndar á ensku. Ekki er komið íslenskt heiti á Maker Spaces, en einhver vill kalla þau Gerver eða Nýsköpunarsmiðjur. Anna María heldur úti fésbókarhóp þar sem hún segir frá því sem er að gerast í Snillismiðjunni. Hún er einnig þátttakandi í hópi kennara sem hafa kynnt sér málið vel og m.a. farið á vinnustofur erlendis þar sem verið er að kynna verkefni fyrir Maker Spaces. Hópurinn kallar sig Maker Spaces á Íslandi og heldur úti samnefndum fésbókarhóp.

Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Háskólinn á Akureyri, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Menntaráðgjöf/Innoent taka núna þátt í Evrópuverkefninu MakEY (Makerspaces in the early years: Enhancing digital literacy and creativity). Um er að ræða samstarfsverkefni fjölmargra háskóla og stofnana innan Evrópu og utan undir forystu Sheffield University í Bretlandi. Hægt er að fylgjast með framvindu verkefnisins á heimasíðu þess, bloggsíðu og samfélagsmiðlum.