Upplýsingatækni, Útikennsla

Upplýsingatækni með ungum börnum

Ég hef verið svo heppin í nokkur ár að fá að koma inn á námskeiðið Umhverfi sem uppspretta náms hjá þeim Kristínu Norðdahl og Guðbjörgu Pálsdóttur. Mitt hlutverk er að segja frá þeim möguleikum sem upplýsingatæknin hefur í leikskólastarfi. Ég legg áherslu á náttúrufræði, útikennslu, stærðfræði og forritun með ungum börnum. Það er alltaf jafn gaman að hitta verðandi leikskólakennara, áhugasamari nemendur fær maður ekki. Það er líka svo gaman að verða vitni að svona „AHA“ augnablikum þegar fólk uppgötvar hvað hægt er að gera með upplýsingatækni með þetta ungum börnum. Í dag bað ég dóttur mína Sunnevu Svavarsdóttur um að koma með mér, en hún er þessar vikurnar að aðstoða við þróunarverkefni í leikskólanum Reynisholti í Grafarholti. Verkefni sem snýst um að nýta upplýsingatækni í námi og kennslu yngstu barnanna í leikskólanum. Sunneva er með mikið af tæknibúnaði í láni frá Mixtúru og er að kynna fyrir starfsfólki leikskólans. Það kom nemunum í dag verulega á óvart hvað það til er mikið af allskonar forritunarleikföngum sem hægt er að nota með ungum börnum.

Upplýsingatækni

Snjallvefjan

Helena Sigurðardóttir kennsluráðgjafi við Kennslumiðstöð Háskólans á Akureyri birti nýlega meistaraverkefnið sitt Snjallvefjan á vefnum. Markmið MA verkefnisins hennar var að útbúa sjálfshjálparvefsíðu sem auðvelda á einstaklingum er glíma við námsörðugleika, kennurum þeirra og foreldrum að læra á ýmis forrit sem geta veitt stuðning við nám og daglegt líf.

Verkefnið fjallar um notkun upplýsingatækni í skólastarfi, þar sem sjónum er beint að notkun snjalltækja hjá einstaklingum með námsörðugleika. Sérstakleg er skoðuð notkun tækni í tengslum við lestrarörðugleika og því sem tengist námsörðugleikum út frá þeim. Hönnun á vefsíðum, fjallað um uppbyggingu, form, leturgerðir og notkunar-möguleika. Það er óhætt að óska okkur öllum til hamingju með verkefnið hennar Helenu því það kemur svo sannarlega til með að nýtast öllum kennurum. Til hamingju Helena!