Samfélagsmiðlar, Upplýsingatækni

Nú geta foreldrar fylgst með spjaldtölvunotkun barnanna

Nýjastu uppfærslu IOS 12 í Apple tækjum fylgja nokkrar innbyggðar aðgerðir sem vert er að benda foreldrum á. Þessar aðgerðir eru hannaðar til þess að hjálpa þér að einbeita þér, takmarka truflun, fylgjast með notkun IOS tækisins og fá betri skilning á því hvernig þú notar tímann þinn allan daginn. Svo er upplagt líka að kynna sér þessa síðu þar sem margar áhugaverðar ábendingar og trix er að finna.

Upplýsingatækni

Hreyfimyndagerð

Leikskólinn Furugrund er með 24 leikskólakennara í heimsókn frá fimm löndum, þátttakendur í Erasmus+ verkefninu Be a master, think creatively  þessa viku og það er ánægjulegt að fá að taka þátt í þessu verkefni með þeim. Ég stýrði m.a. skemmtilegri vinnustofu í morgun. Byrjaði á því að segja þeim frá reynslu minni á því að nýta upplýsingatækni í leikskólum og síðan fengu gestirnir að leika sér í hreyfimyndagerð. Það var svakalega gaman að fylgjast með þeim takast á við verkefnið og afraksturinn varð fimm bráðsniðugar hreyfimyndir. Við notuðum smáforritið Stop Motion sem ung börn eiga sérlega auðvelt með að læra á. Hér má sjá nokkrar myndir frá því í morgun.

Útikennsla

Ratleikur í Fossvogi

Í dag prófuðum við Karólína og Lovísa Rut nýjan ratleik í Fossvogi. Við vorum m.a. að undirbúa ERASMUS+ fund sem verður í næstu viku í Furugrund. Einn liðurinn af mörgum verður að fara með börn og gesti í ratleik í Fossvogi. Vegna ungs aldurs barnanna reyndum við að gera ratleikinn þannig að þau gætu sem mest gert sjálf. Útbjó ég kort með aðstoð Google maps og skrifaði inn á það tölustafi þar sem börnin áttu að finna spjöld með QR kóðum. Sem útbúnir voru með aðstoð QR Code Generator. Með því að skanna QR kóðana fengu börnin verkefni til að leysa á hverjum stað fyrir sig og var það hlutverk kennaranna að lesa skilaboðin sem á bak við kóðana voru. Þetta voru eftirfarandi verkefni; gera vatnstilraun, byggja 2 og 2 saman hús og taka af því ljósmynd með iPadinum, hvíla sig og segja brandara (fílabrandarar fylgdu með í bakpokanum) fylla 2 flöskur af vatni og svo í lokinn að grilla sykurpúða og nota svo vatnið í flöskunum til þess að slökkva eldinn. Allt sem til þurfti var í bakpokanum. Ratleikurinn mátti ekki taka lengri tíma en 90 mínútur og stóðst það alveg. Við vorum ekkert að flýta okkur og vorum um 80 mínútur í leiknum. Viðfangsefnin voru mátulega erfið, en erfiðasta verkefnið reyndist vera það sem við héldum í upphafi, en það var að fylla flöskurnar að vatni. Ratleikurinn reyndist hin mesta skemmtun og voru allir þátttakendur, sem í þetta sinn voru átta stúlkur, afar ánægðir í lok leiksins. Það fengu allir að vera í hlutverki við að skanna QR kvóðana, halda á kortinu og svo frv. Gaman var að heyra stúlkurnar minna hvor aðra á að þetta væri samvinna nokkrum sinnum í leiknum. Við vonum að ratleikurinn geti komið að gagni fyrir fleiri skóla í nágrenni dalsins. Hér fyrir neðan má sjá myndir sem ég tók á meðan á ratleiknum stóð.

Samfélagsmiðlar, Upplýsingatækni

Flipgrid ókeypis

Flipgrid er vefsvæði og líka smáforrit þar sem hægt er að taka upp stutt myndbönd um efni eða efnisþætti sem fjallað er um hverju sinni. Það sameinar kosti samfélagsmiðla við nám og kennslu. Gæta þarf þess að setja efnið fram á skipulegan hátt þannig að auðvelt sé fyrir nemendur að rata um Flipgrid-ið og líka einfalt fyrir kennarann sjálfan í úrvinnslu. Hægt er að stilla verkefni og skilum nemenda þannig að nemendur geti svarað hver öðrum og gefið hver öðrum endurgjafir eða spurt spurninga. Hægt er að fylgja framleiðendum eftir á Twitter til þess að fá hugmyndir um notkun þess, en nokkuð margir kennarar hér á landi eru farnir að vinna í samvinnu við heimilin að nýta Flipgrid við skil verkefna og heimalesturs. Hér er hægt að horfa á kennslumyndband um notkun á Flipgrid.

Upplýsingatækni

Upplýsingatækni i leikskólum

Ég er afar stolt af henni dóttur minni Sunnevu Svavarsdóttur sem kemur fram í myndbandi fyrir Skóla- og frístundsvið Reykjavíkur. Hún hefur verið ásamt samstarfsfólki í leikskólanum Reynisholti að innleiða upplýsingatækni í skólastarfið. Næsta skólaár ætlar hún að vinna að starfendarannsókn um eigið starf og upplýsingatækni með yngstu börnunum í leikskólanum, sem verður jafnframt meistaraverkefnið hennar í leikskólafræðum.

Leikskólinn á Reynisholti | Upplýsingatækni

Í mörgum leikskólum borgarinnar er unnið markvisst með upplýsingatækni. Börnin í Reynisholti byrja snemma að fikta við tækin í leik og starfi. Sunneva Svansdóttir er leikskólakennari í Reynisholti. 💡

Posted by Skóla- og frístundasvið on Fimmtudagur, 14. júní 2018

Upplýsingatækni

Bíó

Í dag var komið að uppskerustund á Lundi. Börnin voru búin að klára sögugerð sína í Puppet Pals og það var komið að því að skoða „bíómyndir“ allra hópa. Það var mikið hlegið og það er alltaf jafn skemmtilegt hvað sum þeirra verða feimin þegar þeirra saga birtist á tjaldinu. Það var misjafnt hversu mikið hóparnir lögðu i söguna sína, en allir voru mjög sáttir með útkomuna. Ég ákvað að setja sögurnar saman sjálf í þetta sinn í iMovie, það hefur ekki verið tími til þess að fara í það forrit með börnunum eftir áramót. Ég ákvað að setja framan við sögurnar myndir og myndbrot frá forvinnunni, svona til þess að sýna hversu mikil vinna það er sem liggur að baki sögugerðinni. Hér fyrir neðan eru myndir frá stund okkar í dag og svo „bíómyndin“. 

Upplýsingatækni

Eiga spjaldtölvur rétt á sér í leikskólum

Í dag haldin ráðstefna á vegum KL í Danmörku þar sem fjallað var um nýja námskrá fyrir leikskóla sem var verið að útbúa í takt við ný lög um leikskóla í Danmörku. Á ráðstefnunni var m.a. umræða um það hvort upplýsingatækni eigi heima í leikskólastarfi, en í nýju námskránni er sérstaklega fjallað um hina stafrænu veröld sem börn í dag eru þátttakendur í og gert ráð fyrir að leikskólarnir vinni með. Danska sjónvarpið fjallaði um málið í gærkvöldi og bauð upp á umræðu með og á móti. Rikke Rosengren rithöfundur og Rudolfsteinarkennari var á móti því að leikskólarnir væru með spjaldtölvur, hún vill að lögð sé meiri áhersla á leikinn og félagslega færni barna. Stine Liv Johansen prófessor við Álaborgarháskóla var ekki sammála og sagði að samkvæmt rannsóknum hefði tilkoma spjaldtölva í leikskólastarfið ekki haft neikvæð áhrif. Spjaldtölvur eru notaðar til þess að auðga leikinn, veita börnum jöfn tækifæri og rannsóknir sýna fram á aukna færni barna í félagslegum samskiptum í dönskum leikskólum. Hægt er að hlusta á rökræður þeirra hér. 

Sérkennsla, Upplýsingatækni

Fikt námsvefurinn kynntur

Í morgun fór ég á fund með sérkennslustjórum í Breiðholti. Bergljót Guðmundsdóttir (Systa) vinkona mín og sérkennsluráðgjafi í Breiðholtinu bað mig um að koma og ræða um upplýsingatækni í leikskólastarfi við sérkennslustjórana. Þar sem ég var ekki alveg viss um það hvað fólk vildi heyra ákvað ég að leyfa þeim að velja um nokkur viðfangsefni. Til þess notaði ég Mentimeter sem er frábært vefverkfæri til þess að útbúa gagnvirkar kynningar.
Það var ánægjulegt fyrir mig að sérkennslustjórarnir höfðu mestan áhuga á að fá kynningu á Fikt námsvefnum mínum.

 

 

 

 

 

 

Hér fyrir neðan má sjá mynd frá fundi okkar sem haldinn var í Gerðubergi. Ég fékk margar góðar hugmyndir við það að skoða vefinn með sérkennslustjórunum. Ég held að ég muni vinna að því fljótlega að setja inn meira efni sem tengist upplýsingatækni í sérkennslu. Ég á fullt af efni, en svo get ég líka vísað mikið á efni sem til er á Sérkennslutorginu. Efni sem sérkennarar margir vita ekki um.

Upplýsingatækni

Örð – Miðstig

Eyþór Bjarki Sigurbjörnsson kennsluráðgjafi í Spjaldtölvuverkefninu í Kópavogi setti inn nýtt myndband á netið í dag. Í síðasta mánuði kom út myndband um upplýsingatækni á yngsta stigi grunnskólans, en núna var að koma út þetta myndband þar sem fjallað er um upplýsingatækni á miðstigi grunnskólans. Ætlunin er að útbúa mörg myndbönd þar sem tekin eru viðtöl við þátttakendur í spjaldtölvuverkefninu. Myndböndin snerta öll nám, kennslu og menntun með spjaldtölvum. Myndböndin heita öll Örð. Það nafn er fornt en merkir ýmist plæging, sáð, akurland eða uppskera. Allt orð sem ráðgjöfunum í spjaldtölvuteyminu finnst passa við myndböndin enda eru þau einskonar uppskera úr sáðlandinu, grunnskólum Kópavogs.