Sérkennsla, Upplýsingatækni

Flipgrid

Í dag var ég á námskeiði í notkun Flipgrid hjá vinkonu minni henni Ingileif. Hún, Lína og Karen Sif ömmustelpa Ingileifar fræddu okkur um möguleika í notkun á Flipgrid. Flipgrid er afskaplega hentugt tæki til þess t.d. að láta börn lesa fyrir sig. Sjá kennslumyndband. Hægt er að safna saman í eina möppu upplestrum og ég sé marga möguleika með þessu forriti í sérkennslu. Ég sé fyrir mér að hægt væri að búa til „grid“ til þess að foreldrar barna geti tekið upp frásagnir barnanna um t.d. bók sem foreldrið hefur lesið. Ég hef verið að æfa mig með ömmu stráknum mínum. Hann hefur lesið inn nokkur sýnishorn fyrir mig. Ég hef í hyggju að kynna Flipgrid fyrir sérkennslustjórum í leikskólum því ég sé fyrir mér þarna gott tækifæri til aukinna samskipta við foreldra þeirra barna sem við erum að styðja í leikskólanum. Flipgrid er þannig að þú útbýrð „gridin“ á vefsíðunni þeirra, en þátttakendur nota síðan smáforrit í snjalltækjum til þess að vinna viðfangsefnin. Þetta er í raun alveg sára einfalt og það sem best er að þetta er alveg lokað þannig að persónuvernd samþykkir þennan samskiptamáta. Ingileif útbjó fésbókarhóp sem heitir Spurt og svarað um Flipgrid og hvet ég alla til þessa kynna sér Flipgrid.

Sérkennsla, Upplýsingatækni

Fikt námsvefurinn kynntur

Í morgun fór ég á fund með sérkennslustjórum í Breiðholti. Bergljót Guðmundsdóttir (Systa) vinkona mín og sérkennsluráðgjafi í Breiðholtinu bað mig um að koma og ræða um upplýsingatækni í leikskólastarfi við sérkennslustjórana. Þar sem ég var ekki alveg viss um það hvað fólk vildi heyra ákvað ég að leyfa þeim að velja um nokkur viðfangsefni. Til þess notaði ég Mentimeter sem er frábært vefverkfæri til þess að útbúa gagnvirkar kynningar.
Það var ánægjulegt fyrir mig að sérkennslustjórarnir höfðu mestan áhuga á að fá kynningu á Fikt námsvefnum mínum.

 

 

 

 

 

 

Hér fyrir neðan má sjá mynd frá fundi okkar sem haldinn var í Gerðubergi. Ég fékk margar góðar hugmyndir við það að skoða vefinn með sérkennslustjórunum. Ég held að ég muni vinna að því fljótlega að setja inn meira efni sem tengist upplýsingatækni í sérkennslu. Ég á fullt af efni, en svo get ég líka vísað mikið á efni sem til er á Sérkennslutorginu. Efni sem sérkennarar margir vita ekki um.