Sérkennsla, Upplýsingatækni

Flipgrid

Í dag var ég á námskeiði í notkun Flipgrid hjá vinkonu minni henni Ingileif. Hún, Lína og Karen Sif ömmustelpa Ingileifar fræddu okkur um möguleika í notkun á Flipgrid. Flipgrid er afskaplega hentugt tæki til þess t.d. að láta börn lesa fyrir sig. Sjá kennslumyndband. Hægt er að safna saman í eina möppu upplestrum og ég sé marga möguleika með þessu forriti í sérkennslu. Ég sé fyrir mér að hægt væri að búa til „grid“ til þess að foreldrar barna geti tekið upp frásagnir barnanna um t.d. bók sem foreldrið hefur lesið. Ég hef verið að æfa mig með ömmu stráknum mínum. Hann hefur lesið inn nokkur sýnishorn fyrir mig. Ég hef í hyggju að kynna Flipgrid fyrir sérkennslustjórum í leikskólum því ég sé fyrir mér þarna gott tækifæri til aukinna samskipta við foreldra þeirra barna sem við erum að styðja í leikskólanum. Flipgrid er þannig að þú útbýrð „gridin“ á vefsíðunni þeirra, en þátttakendur nota síðan smáforrit í snjalltækjum til þess að vinna viðfangsefnin. Þetta er í raun alveg sára einfalt og það sem best er að þetta er alveg lokað þannig að persónuvernd samþykkir þennan samskiptamáta. Ingileif útbjó fésbókarhóp sem heitir Spurt og svarað um Flipgrid og hvet ég alla til þessa kynna sér Flipgrid.

Sérkennsla, Upplýsingatækni

Myndir lifna við

Það kemur fyrir að hvetja þarf sérstaklega einstaka börn í leikskólanum til þess að efla fínhreyfingar sínar, þau eru t.d. ekki alveg búin að ná aldurssvarandi gripi um skriffæri. Í morgun ákvað ég að nota upplýsingatæknina sem hvata til þess að fá nokkur börn til þess að lita fyrir mig myndir. Börnin voru afar misjafnlega á vegi stödd hvað varðar fínhreyfifærni, en það kom ekki að sök því öll fengu þau að sjá myndirnar sínar lifna við með aðstoð smáforritsins Quiver (ókeypis) og það fannst þeim nú ekki leiðinlegt. Það er alltaf jafngaman fyrir mig sem kennara að fylgjast með undrun barnanna þegar fuglinn þeirra, bíllinn og fl. fara á hreyfingu. Hér á heimasíðu Quiver er hægt að prenta út myndir til þess að lita.

Upplýsingatækni

Alþjóðadagur kennara

Alla jafna hefði ég sett inn á samfélagsmiðla færslur úr leikskólastarfinu í dag, en núna vildi svo til að ég var með fullorðins nemendur. Annasamri viku lokaði ég með því að bruna á Húnavelli í Austur Húnavatnssýslu. Þar var mikið fjör og mikið gaman á haustþingi 5 deildar FL. Ég var með tvær vinnustofur þar sem ég kynnti Fikt og kenndi á þrjú smáforrit, Chatter Pix Kids, Puppet Pals og svo Book Creator. Nemendur mínir voru sérlega áhugasamir og skemmtilegt að kenna þeim. Takk kærlega fyrir mig.

Upplýsingatækni

Bíó

Í dag var komið að uppskerustund á Lundi. Börnin voru búin að klára sögugerð sína í Puppet Pals og það var komið að því að skoða „bíómyndir“ allra hópa. Það var mikið hlegið og það er alltaf jafn skemmtilegt hvað sum þeirra verða feimin þegar þeirra saga birtist á tjaldinu. Það var misjafnt hversu mikið hóparnir lögðu i söguna sína, en allir voru mjög sáttir með útkomuna. Ég ákvað að setja sögurnar saman sjálf í þetta sinn í iMovie, það hefur ekki verið tími til þess að fara í það forrit með börnunum eftir áramót. Ég ákvað að setja framan við sögurnar myndir og myndbrot frá forvinnunni, svona til þess að sýna hversu mikil vinna það er sem liggur að baki sögugerðinni. Hér fyrir neðan eru myndir frá stund okkar í dag og svo „bíómyndin“. 

Upplýsingatækni

Upplýsingatækni – Handraðinn

Í dag var opinberuð frábær vefsíða sem hönnuð var og unnin af Berglindi Hauksdóttur, Ingileif Ástvaldsdóttur, Lindu Rós Rögnvaldsdóttur og Margréti Th. Aðalgeirsdóttur sem lokaverkefni í námskeiðinu Upplýsingatækni og starfsþróun til framtíðar í Háskólanum á Akureyri.

Handraðinn er ætlaður fyrir kennara og nemendur sem vilja nýta sér upplýsingatækni í skólastarfi. Markmiðið er að safna hugmyndum að verkfærum og gera þau aðgengileg svo þau nýtist í daglegu starfi. Að sögn höfunda er það þeirra von að verkfærin nýtist þeim kennurum sem vilja auka hlut rafrænna kennsluhátta í sínu starfi. Ég hvet alla til þess að skoða vefsíðuna, hún er fagmannlega upp sett, frábært að sjá þessar tengingar við aðalnámskrá grunnskóla, hæfniviðmið og fl. áhugavert.

Upplýsingatækni

Töfrar

Börnin í Álfaheiði voru að leika sér með smáforritið Quiver í þessari viku. Það var áhugavert að fylgjast með viðbrögðum þeirra. Til þess að galdra, eins og börnin sögðu að þau væru að gera, þarf að fara inn á heimasíðu Quiver og prenta út myndir. Forritið er frítt og nokkuð margar myndanna líka, en það er líka hægt að kaupa myndir fyrir smápening. Síðan lita börnin myndirnar og svo er smáforritið notað til þess að breyta myndinni þeirra í þrívídd. Þetta þótti börnunum afar áhugavert og reyndar starfsfólkinu líka.

Upplýsingatækni

Chatter Pix

Í fyrstu vikum janúar voru elstu börnin í leikskólanum Álfaheiði að læra á forritið ChatterPix- Kids. Forritið er ókeypis og mjög auðvelt í notkun. Börnin voru strax komin með margar hugmyndir um það hvernig þau geta notað það. Við tókum m.a. mynd af risaeðlulampa sem við sáum inni á Hlíð og börnin létu risaeðluna gefa frá sér ógurleg hljóð. Hér fyrir neðan má sjá hóp vinna, en ég er með fjóra 5-6 manna hópa og fáum iPada lánaða á næstu deildum svo börnin geti verið 2-3 með hvern iPad. Hægt verður að fylgjast með því sem við erum að læra í upplýsingatækni hér á vefsíðu Lundar.