Upplýsingatækni

Upplýsingatækni i leikskólum

Ég er afar stolt af henni dóttur minni Sunnevu Svavarsdóttur sem kemur fram í myndbandi fyrir Skóla- og frístundsvið Reykjavíkur. Hún hefur verið ásamt samstarfsfólki í leikskólanum Reynisholti að innleiða upplýsingatækni í skólastarfið. Næsta skólaár ætlar hún að vinna að starfendarannsókn um eigið starf og upplýsingatækni með yngstu börnunum í leikskólanum, sem verður jafnframt meistaraverkefnið hennar í leikskólafræðum.

Leikskólinn á Reynisholti | Upplýsingatækni

Í mörgum leikskólum borgarinnar er unnið markvisst með upplýsingatækni. Börnin í Reynisholti byrja snemma að fikta við tækin í leik og starfi. Sunneva Svansdóttir er leikskólakennari í Reynisholti. 💡

Posted by Skóla- og frístundasvið on Fimmtudagur, 14. júní 2018

Upplýsingatækni

Örð – Miðstig

Eyþór Bjarki Sigurbjörnsson kennsluráðgjafi í Spjaldtölvuverkefninu í Kópavogi setti inn nýtt myndband á netið í dag. Í síðasta mánuði kom út myndband um upplýsingatækni á yngsta stigi grunnskólans, en núna var að koma út þetta myndband þar sem fjallað er um upplýsingatækni á miðstigi grunnskólans. Ætlunin er að útbúa mörg myndbönd þar sem tekin eru viðtöl við þátttakendur í spjaldtölvuverkefninu. Myndböndin snerta öll nám, kennslu og menntun með spjaldtölvum. Myndböndin heita öll Örð. Það nafn er fornt en merkir ýmist plæging, sáð, akurland eða uppskera. Allt orð sem ráðgjöfunum í spjaldtölvuteyminu finnst passa við myndböndin enda eru þau einskonar uppskera úr sáðlandinu, grunnskólum Kópavogs.

Upplýsingatækni

Upplýsingatækni – Handraðinn

Í dag var opinberuð frábær vefsíða sem hönnuð var og unnin af Berglindi Hauksdóttur, Ingileif Ástvaldsdóttur, Lindu Rós Rögnvaldsdóttur og Margréti Th. Aðalgeirsdóttur sem lokaverkefni í námskeiðinu Upplýsingatækni og starfsþróun til framtíðar í Háskólanum á Akureyri.

Handraðinn er ætlaður fyrir kennara og nemendur sem vilja nýta sér upplýsingatækni í skólastarfi. Markmiðið er að safna hugmyndum að verkfærum og gera þau aðgengileg svo þau nýtist í daglegu starfi. Að sögn höfunda er það þeirra von að verkfærin nýtist þeim kennurum sem vilja auka hlut rafrænna kennsluhátta í sínu starfi. Ég hvet alla til þess að skoða vefsíðuna, hún er fagmannlega upp sett, frábært að sjá þessar tengingar við aðalnámskrá grunnskóla, hæfniviðmið og fl. áhugavert.

Upplýsingatækni

Dr. Zachary Walker á Íslandi

Á Alþjóðadegi kennara 5. október sl. stóð Kennarasamband Íslands og Skólameistarafélag Íslands fyrir skólamálaþingi. Yfirskrift Skólamálaþingsins var Innfædd á internetinu: breyttur heimur, snjallari nemendur. Aðalfyrirlesari var dr. Zachary Walker. Það var afar áhugavert að hlusta á Zachary, en hann hélt tvö erindi. Hægt er að horfa á upptökur frá erindum hans hér á heimasíðu KÍ. Zachary talaði í fyrirlestri sínum út frá átta mikilvægum spurningum sem kennarar þurfa að spyrja sig þegar þeir kenna og leiðbeina nemendum. Kannað var hvernig þessar spurningar gagnast kennurum, stjórnendum, samstarfsfólki og foreldrum. Zachary sagði að ef við viljum geta undirbúið nemendur fyrir þann síbreytilega og spennandi heim sem bíður þeirra verðum við að taka mark á og virða þessa kynslóð nemenda. Spurningin er hvort við erum reiðubúin að takast á við afar krefjandi spurningar til gagns fyrir nemendur okkar?