Sérkennsla, Upplýsingatækni

Flipgrid

Í dag var ég á námskeiði í notkun Flipgrid hjá vinkonu minni henni Ingileif. Hún, Lína og Karen Sif ömmustelpa Ingileifar fræddu okkur um möguleika í notkun á Flipgrid. Flipgrid er afskaplega hentugt tæki til þess t.d. að láta börn lesa fyrir sig. Sjá kennslumyndband. Hægt er að safna saman í eina möppu upplestrum og ég sé marga möguleika með þessu forriti í sérkennslu. Ég sé fyrir mér að hægt væri að búa til „grid“ til þess að foreldrar barna geti tekið upp frásagnir barnanna um t.d. bók sem foreldrið hefur lesið. Ég hef verið að æfa mig með ömmu stráknum mínum. Hann hefur lesið inn nokkur sýnishorn fyrir mig. Ég hef í hyggju að kynna Flipgrid fyrir sérkennslustjórum í leikskólum því ég sé fyrir mér þarna gott tækifæri til aukinna samskipta við foreldra þeirra barna sem við erum að styðja í leikskólanum. Flipgrid er þannig að þú útbýrð „gridin“ á vefsíðunni þeirra, en þátttakendur nota síðan smáforrit í snjalltækjum til þess að vinna viðfangsefnin. Þetta er í raun alveg sára einfalt og það sem best er að þetta er alveg lokað þannig að persónuvernd samþykkir þennan samskiptamáta. Ingileif útbjó fésbókarhóp sem heitir Spurt og svarað um Flipgrid og hvet ég alla til þessa kynna sér Flipgrid.

Upplýsingatækni

ZOOM

Í dag fór ég á námskeið í að nota Zoom fundarkerfið hjá Ingibjörgu Gísladóttur. Zoom er einstaklega þægilegt í meðförum enda mjög útbreytt jafnt hjá fyrirtækjum sem til persónulegra nota. Námsiðið tók yfir í 20 mín, enda kerfið svo einfalt að það er varla þörf á að kenna á það. Hver sem er getur fundið út úr því hvernig á að nota það. Hér er krækja á góðar leiðbeiningar.

Samspil 2018, Upplýsingatækni

#menntaspjall

Í morgun tók ég þátt í #menntaspjall (i) sem var undir stjórn Björns Gunnlaugssonar (@bjorngunnlaugs) og Álfhildar Leifsdóttur (@AlfhildurL). Þau höfðu það að markmiði að vekja athygli á átakinu #snjallirnemendur myllumerkinu á Twitter (sjá nánar https://www.facebook.com/groups/813050209064892/). Undanfarið hefur verið töluverð umræða um snjalltæki nemenda og áhrif þeirra á náms- og félagslegt umhverfi þeirra. Hafa sumir gengið svo langt að banna þau alfarið innan skóla. Öðrum finnst að þar sé litið framhjá jákvæðum áhrifum á nám og kennslu. Með átakinu #snjallirnemendur er ætlunin að vekja sérstaklega athygli á hversu snjalla nemendur við eigum í skólunum og jákvæðar hliðar snjalltækja- og tækninotkunar sem má sjá hjá þeim, bæði innan og utan skóla.

Það varð góð og gagnleg umræða um málefnið í morgun og hvet ég alla til þess að skoða samantekt umræðunnar hér. 

Upplýsingatækni

Íslenskan og snjalltækin

Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands var í viðtali á RÚV í gær. Þar var fjallað um viðamikla rannsókn á áhrifum tæknibreytinga á stöðu og framtíð íslenskrar tungu og hve mikil áhrif enskunnar eru. Kannað var hversu snemma börn byrja að nota netið. Árið 2013 byrjuðu 2% barna að nota netið fyrir þriggja ára aldur. En núna eru 58% barna byrjuð að nota tölvur og snjalltæki tveggja ára og yngri. „Og átta prósent þeirra byrjuðu að nota snjalltæki og tölvur fyrir eins árs aldur,“ segir Sigríður.

Nú sé ég ástæðu til að vitna í sjálfa mig. „Það er mikilvægt að ung börn verði ekki einungis neytendur stafræns efnis í tækjunum og noti þau sér til afþreyingar, heldur læri þau að nýta þennan búnað sem verkfæri og námstæki til að afla þekkingar, vinna úr alls konar efni, búa til stafrænt efni og deila því með öðrum. Þannig má minnka þau áhrif sem enskt málumhverfi í smáforritum hefur á málþroska ungra barna hér á landi og efla málnotkun og málþroska með ýmsu móti um leið og stuðlað er að auknum þroska og námi á mörgum fleiri sviðum.“

Hvar annars staðar en í leikskólanum þar sem börnin dvelja nánast allan sinn vökutíma eru meiri tækifæri til þess að viðhalda íslenskri tungu. Það þurfa allir að fara að vakna, ekki bara foreldrar barnanna heldur leikskólakennarar, sveitarfélög og menntayfirvöld sem setja stefnuna. Leikskólarnir geta gefið ungum börnum tækifæri til að fást við hvetjandi og örvandi viðfangsefni. Tæknin getur ýtt undir sköpunarkraft barnanna og forvitni, tjáningu og fróðleiksfýsn þeirra. Með uppbyggilegri og markvissri tækninotkun er hægt að búa börnin undir nám og þátttöku í tæknivæddu samfélagi.

Frændur okkar í Noregi eru vaknaðir og hafin er markviss starfsþróun fyrir allt starfsfólk leikskólanna til þess að efla það í færni og þekkingu á notkun upplýsingatækni í skólastarfinu. Markmiðið er að allir í leikskólanum hafi hæfileika til þess að kenna börnum að takast á við tækni til framtíðar. Hægt er m.a. að fylgjast með þessu metnaðarfulla starfi á vefsíðunni Digital Arena Barnehagen. 

Nú kalla ég eftir aðgerðum, við getum ekki bara lokað augunum og haldið áfram að moka peningum í sérkennslu í von um að börnin læri íslensku „einhvern tímann“ síðar, kannski í grunnskólanum. Við hefðum átt að vera fyrir löngu byrjuð að takast á við þetta viðfangsefni.

Upplýsingatækni

Hvar standa leikskólar í upplýsingatækni?

Fyrirtækið Myndmál gerði könnun nýlega á notun tölva (spjaldtölva aðallega) í leikskólum landsins. Því miður þá var þátttaka í könnuninni ekki mikil, eða 38 leikskólakennarar gáfu sér tíma til þess að svara könnuninni. Þátttakendur voru víða að landinu svo það má sjá hver staðan er víða um land.

Niðurstaðan er því miður sú að leikskólar hér á landi eru ekki ofsetnir af tæknibúnaði. Að jafnaði er ein spjaldtölva á hverri deild í leikskólunum hér á landi og fram kemur að mikill skortur er á smáforritum á íslensku til þess að nota í leikskólastarfinu. Hægt er að nálgast niðurstöðuna hér á heimasíðu Myndmáls. 

Sköpun, Upplýsingatækni

Breakout Edu

Nýlega var haldin vinnusmiðja í Árskóla á Sauðárkróki þar sem saman komu kennarar víða af landinu og lærðu undir stjórn Ingva Hrannars að nota Breakout edu í skólastarfi. Í kjölfar vinnusmiðjunnar útbjuggu Nanna María og Ingvi Hrannar námsvef fyrir kennara. Á vefnum er safnað saman mörgum frábærum hugmyndum af leikjum frá kennurum víða um land.

Breakout Edu svipar til „escape“ leikja. Nemendur standa frammi fyrir vanda sem þeir þurfa að leysa með því að ráða fram úr vísbendingum í sameiningu og ná að opna kassann áður en tíminn rennur út. Breakout er einnig til í stafrænum útfærslum ef kassinn er ekki til staðar eða undirbúningur af skornum skammti. Breakout Edu er stórskemmtileg viðbót við allar skólastofur og hentar öllum aldri og í öllum námsgreinum. Hefur mjög góð áhrif á hópinn, eflir samvinnu, samskiptahæfni og þrautseigju ásamt því að efla þrautalausnahugsun og ályktunarhæfni.

Takk kærlega Nanna María og Ingvi Hrannar fyrir þennan frábæra vef. 

Sérkennsla, Sköpun, Upplýsingatækni

Puppet Pals

Þessa dagana eru eldri börnin sem mæta snemma á morgnanna að æfa sig í smáforritinu Puppet Pals. Þetta er afar skemmtilegt forrit þar sem börnin eru að skapa sinn eigin söguheim og tjá sig með brúðum. Brúðurnar eru tilbúnar, en þau hafa líka lært að búa til sínar eigin og setja líka sjálf sig inn í forritið og tala fyrir sig í ýmsum aðstæðum. Hægt er að fræðast meira um forritið og læra á það hér á Fikt. 
Börnin eru að búa til sitt eigið ævintýri út þessa viku og síðan eiga þau að fá tækifæri til þess að sýna hinum börnunum endanlegu útgáfuna. Við setjum ævintýrin á YouTube svo foreldrar geta notið líka.

Mosaic44b0f104c1106e8307508901ddeebc31f8fa85e8

Sköpun, Upplýsingatækni

Snillismiðjur

Árið 2017 fékk #VEXAedu styrk úr Sprotasjóði til að útbúa veflæga fræðslugátt og byggja upp lærdómssamfélag um Makerspaces í grunnskólum á Íslandi. Fræðslugáttin, sem var kölluð „Snillismiðjur“  og var unnin í samstarfi við Reykjavíkurborg og var gerð í vefsíðuforritinu Google Sites innan G-Suite kerfis borgarinnar.

Í fræðslugáttinni er að finna ýmsar hagnýtar upplýsingar fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna. Þar er bent á fjölbreyttar leiðir til starfsþróunar, innkaupalista, önnur lærdómssamfélög á samfélagsmiðlum, fræðsluefni samansafn af bókum og fræðigreinum. Einnig er að finna verkefnabanka sem #VEXAedu hópurinn hefur sett saman og þýtt í samstarfi við fræðsluveitur og höfunda. Verkefnabankinn verður reglulega uppfærður. Frábært framtak hjá þeim #VEXAedu konum. Takk fyrir.

Á bakvið #VEXAedu standa:

  • Anna María Þorkelsdóttir, kennsluráðgjafi Hörðuvallaskóla, Kópavogi
  • Bjarndís Fjóla Jónsdóttir, UT kennslufulltrúi Skrifstofu fræðslu- og frístundaþjónustu Hafnarfjarðar
  • Erla Stefánsdóttir, verkefnastjóri Mixtúru margmiðlunarvers Reykjavíkurborgar
  • Hildur Rudolfsdóttir, kennsluráðgjafi í tölvu- og upplýsingatækni í Garðaskóla, Garðabæ
  • Hugrún Elísdóttir, UT verkefnastjóri Grunnskóla Snæfellsbæjar
  • Rósa Harðardóttir, skólasafnskennari og UT verkefnastjóri Selásskóla, Reykjavík
  • Þorbjörg Þorsteinsdóttir, verkefnastjóri Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar.