Upplýsingatækni

Námskeið í forritun

Ég átti sérlega skemmtilegt kvöld með fyrrum samstarfsfólki mínu í leikskólanum Furugrund. Ég er svo stolt af þeim að halda ótrauð áfram að vinna með upplýsingatækni í skólastarfinu. Núna stendur til að hefja þátttöku í frábæru Erasmus + verkefni sem ber yfirheitið Be a master think creatively. Verkefnið felur m.a. í sér að starfsfólk leikskólans ætlar að læra með börnunum að forrita. Mitt hlutverk var að kenna þeim grunnatriði forritunar.  Í verkefninu þeirra verður unnið með einfaldasta form forritunar fyrir börn á leikskólaaldri, en það er forritun með og án verkfæra sem er ekki svo ólíkt því að fara í þrautakóng.  Þau smáforrit sem starfsfólkið mun aðallega læra á með börnunum eru t.d OSMO Coding og Scratch Jr, en svo munu þau nota mikið forritunarleikföng eins og litlu Býfluguna (Beeboot).  Ég er sérlega ánægð með starfsfólkið í leikskólanum í Furugrund vegna þess að þau eru að vinna frumkvöðlastarf með því að taka inn forritun í skólastarfið og verður áhugavert að fylgjast með vinnu þeirra. Eftir smá erindi þá héldum við vinnustofu þar sem allir fengu að reyna sig við mismunandi forritunarleikföng og læra á Scratch Jr. smáforritið. Það var rosalega gaman að koma í Furugrund og eiga með þeim kvöldstund.