Útikennsla

Ratleikur í Fossvogi

Í dag prófuðum við Karólína og Lovísa Rut nýjan ratleik í Fossvogi. Við vorum m.a. að undirbúa ERASMUS+ fund sem verður í næstu viku í Furugrund. Einn liðurinn af mörgum verður að fara með börn og gesti í ratleik í Fossvogi. Vegna ungs aldurs barnanna reyndum við að gera ratleikinn þannig að þau gætu sem mest gert sjálf. Útbjó ég kort með aðstoð Google maps og skrifaði inn á það tölustafi þar sem börnin áttu að finna spjöld með QR kóðum. Sem útbúnir voru með aðstoð QR Code Generator. Með því að skanna QR kóðana fengu börnin verkefni til að leysa á hverjum stað fyrir sig og var það hlutverk kennaranna að lesa skilaboðin sem á bak við kóðana voru. Þetta voru eftirfarandi verkefni; gera vatnstilraun, byggja 2 og 2 saman hús og taka af því ljósmynd með iPadinum, hvíla sig og segja brandara (fílabrandarar fylgdu með í bakpokanum) fylla 2 flöskur af vatni og svo í lokinn að grilla sykurpúða og nota svo vatnið í flöskunum til þess að slökkva eldinn. Allt sem til þurfti var í bakpokanum. Ratleikurinn mátti ekki taka lengri tíma en 90 mínútur og stóðst það alveg. Við vorum ekkert að flýta okkur og vorum um 80 mínútur í leiknum. Viðfangsefnin voru mátulega erfið, en erfiðasta verkefnið reyndist vera það sem við héldum í upphafi, en það var að fylla flöskurnar að vatni. Ratleikurinn reyndist hin mesta skemmtun og voru allir þátttakendur, sem í þetta sinn voru átta stúlkur, afar ánægðir í lok leiksins. Það fengu allir að vera í hlutverki við að skanna QR kvóðana, halda á kortinu og svo frv. Gaman var að heyra stúlkurnar minna hvor aðra á að þetta væri samvinna nokkrum sinnum í leiknum. Við vonum að ratleikurinn geti komið að gagni fyrir fleiri skóla í nágrenni dalsins. Hér fyrir neðan má sjá myndir sem ég tók á meðan á ratleiknum stóð.