Upplýsingatækni

Íslenskan og snjalltækin

Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands var í viðtali á RÚV í gær. Þar var fjallað um viðamikla rannsókn á áhrifum tæknibreytinga á stöðu og framtíð íslenskrar tungu og hve mikil áhrif enskunnar eru. Kannað var hversu snemma börn byrja að nota netið. Árið 2013 byrjuðu 2% barna að nota netið fyrir þriggja ára aldur. En núna eru 58% barna byrjuð að nota tölvur og snjalltæki tveggja ára og yngri. „Og átta prósent þeirra byrjuðu að nota snjalltæki og tölvur fyrir eins árs aldur,“ segir Sigríður.

Nú sé ég ástæðu til að vitna í sjálfa mig. „Það er mikilvægt að ung börn verði ekki einungis neytendur stafræns efnis í tækjunum og noti þau sér til afþreyingar, heldur læri þau að nýta þennan búnað sem verkfæri og námstæki til að afla þekkingar, vinna úr alls konar efni, búa til stafrænt efni og deila því með öðrum. Þannig má minnka þau áhrif sem enskt málumhverfi í smáforritum hefur á málþroska ungra barna hér á landi og efla málnotkun og málþroska með ýmsu móti um leið og stuðlað er að auknum þroska og námi á mörgum fleiri sviðum.“

Hvar annars staðar en í leikskólanum þar sem börnin dvelja nánast allan sinn vökutíma eru meiri tækifæri til þess að viðhalda íslenskri tungu. Það þurfa allir að fara að vakna, ekki bara foreldrar barnanna heldur leikskólakennarar, sveitarfélög og menntayfirvöld sem setja stefnuna. Leikskólarnir geta gefið ungum börnum tækifæri til að fást við hvetjandi og örvandi viðfangsefni. Tæknin getur ýtt undir sköpunarkraft barnanna og forvitni, tjáningu og fróðleiksfýsn þeirra. Með uppbyggilegri og markvissri tækninotkun er hægt að búa börnin undir nám og þátttöku í tæknivæddu samfélagi.

Frændur okkar í Noregi eru vaknaðir og hafin er markviss starfsþróun fyrir allt starfsfólk leikskólanna til þess að efla það í færni og þekkingu á notkun upplýsingatækni í skólastarfinu. Markmiðið er að allir í leikskólanum hafi hæfileika til þess að kenna börnum að takast á við tækni til framtíðar. Hægt er m.a. að fylgjast með þessu metnaðarfulla starfi á vefsíðunni Digital Arena Barnehagen. 

Nú kalla ég eftir aðgerðum, við getum ekki bara lokað augunum og haldið áfram að moka peningum í sérkennslu í von um að börnin læri íslensku „einhvern tímann“ síðar, kannski í grunnskólanum. Við hefðum átt að vera fyrir löngu byrjuð að takast á við þetta viðfangsefni.