Um vefinn

Fikt – Námsvefur um upplýsingatækni fyrir kennara í leikskóla og á yngsta stigi grunnskóla ásamt greinargerð sem honum fylgir er lokaverkefni til M.Ed.-prófs í náms og kennslufræði. Í greinargerðinni er fjallað um bakgrunn verkefnisins, fræðilegt samhengi, stöðu upplýsingatækni í skólastarfi og reynslu höfundar, hugmyndir og vinnu sem að baki vefnum liggur. Greint er frá megintilgangi með efnisgerðinni og helstu markmiðum sem stýra efnisvali og áherslum. Stuðst var við og bent á  nánast allar helstu rannsóknir og þróunarverkefni sem unnið hefur verið að hér á landi í tengslum við innleiðingu á spjaldtölvum í skólastarfi á leikskólastigi og yngsta aldursstigi grunnskóla. Höfundur miðlar líka af eigin þekkingu og persónulegri reynslu af áralangri notkun á upplýsingatækni í leikskólastarfi og kemur með tillögur um það á hvaða hátt hægt er að nota upplýsingatækni í daglegu skólastarfi með börnum.

Megintilgangur með gerð námsvefsins er að stuðla að aukinni notkun á upplýsingatækni í skólastarfi, koma fræðslu og upplýsingum um möguleika því tengdu á framfæri með skipulegu móti og opna augu kennara fyrir því að vinna má með upplýsingatækni og snjalltæki á skapandi hátt. Námsvefurinn er opinn í anda hugmyndafræði um opið menntaefni (e. Open Educational Resources, OER). Lögð er nokkur áhersla á notkun spjaldtölva við efnisgerð, miðlun, samskipti og fleira en einnig fjallað um ýmis viðfangsefni sem varða tæknina sjálfa og vert er að taka fyrir í námi og kennslu og má þar til að mynda nefna myndræna forritun við hæfi ungra barna.

Á námsvefnum eru meðal annars birtar stuttar kennslumyndir til þess að kennarar geti sest niður, fengið leiðsögn á íslensku um tækninotkun og lært á nokkur smáforrit. Gerðar eru tillögur að kennsluáætlunum þar sem reynir á vinnu í hverju þessara forrita og dregnar eru fram hugmyndir um notkun smáforritanna í kennslu ungra barna. Síðast en ekki síst eru á námsvefnum ábendingar um efni sem komast má í á netinu og kennarar geta notað til starfsþróunar og í kennslu þar sem lögð er áhersla á notkun upplýsingatækni.

Creative Commons leyfi
Þetta verk er gefið út með Creative Commons Vísun til höfundar 4.0 Alþjóðlegt afnotaleyfi.