Samfélagsmiðlar, Samspil 2018, Upplýsingatækni

Samspil 2018

Í gær hófst formlega Samspil 2018. Samspil 2018 er starfsþróunarátak þar sem blandast saman fræðsla, samstarf og samnýting þekkingar og reynslu þeirra sem starfa í skólum í skemmtilegu og aðgengilegu námsumhverfi. Að þessu átaki standa Menntamiðja, Samstarfsráð um starfsþróun kennara og skólastjórnenda og stýrihópur um úttekt á menntun fyrir alla. Einnig koma að verkefninu fjöldi sérfræðinga, fræðimanna og reynslubolta úr skólum og víðar.
Fræðslan fer að mestu fram á netinu og þátttakendur fá að kynnast því hvernig samfélagsmiðlar og tengslanet stuðla að uppbyggilegri og áframhaldandi starfsþróun. Síðdegis í gær var fræðslufundur um Samspil 2018 haldinn á Menntavísindasviði HÍ og mætti ég þangað til þess að vera með frá upphafi. Samspil 2018 er sjálfstætt framhald af Samspil 2015 sem ég tók þátt í og hafði bæði gagn og gaman af. Markmið Samspils 2018 er að þátttakendur fræðist um starfsþróun og nýjar kennsluaðferðir og námstækni fyrir fjölbreytta nemendahópa um leið og þeir taka þátt í að byggja upp öflug og kvik starfssamfélög skólafólks á netinu og í raunheimum. Hægt verður að skrá sig í Samspil 2018 hvenær sem er og taka eins mikið þátt og hver og einn vill. Dagskráin verður kynnt á næstu dögum og borgar sig að vera vel upplýstur bæði inni í Fésbókarhóp Samspil 2018 og svo á Twitter undir millumerkinu #samspil2018 
Í gær kynnti ég fyrir þátttakendum hvar hér á síðunni má finna upplýsingar um hvernig nota á samfélagsmiðla, Fésbók, Twitter, Tweetdeck og Pinterest og vona ég að það efni komi að notum. Ég hlakka til að læra og deila með öðrum kennurum á Samspil 2018.

Samfélagsmiðlar, Upplýsingatækni

Menntabúðir

Í næstu viku verða bara haldnar menntabúðir dag eftir dag. Mánudaginn 29. október kl. 15 verða haldnar menntabúðir #Kópmennt í Vatnsendaskóla í Kópavogi. Þar ætla ég m.a. að kynna Fikt námsvefinn minn. Það er í fyrsta sinn sem ég kynni hann á heimavelli og vona ég að leikskólakennarar láti sjá sig. Hingað til hafa þeir ekki mætt mikið á #Kópmennt, en það má vera að tímasetning menntabúðanna hennti illa fyrir þá.
Þriðjudaginn 30. október kl. 16:15 á Menntavísindasviði HÍ verða haldnar menntabúðir á vegum Upplýsingatæknitorgs, Menntavísindasviðs HÍ, RannUm, Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og Skrifstofu fræðslu- og frístundaþjónustu Hafnarfjarðar. Vel má vera að ég taki þátt í þeim menntabúðum líka, en þá með eitthvað annað viðfangsefni.

Menntabúðir (e. EduCamp) er starfsþróun á jafningjagrundvelli. Aðferðin byggir á óformlegri jafningjafræðslu sem stuðlar að aukinni umræðu á milli skólastiga sem og eflingu tengslanets kennara. Þátttakendur miðla af eigin reynslu og þekkingu og afla sér fróðleiks frá öðrum. Menntabúðir eru opnar öllum en sérstaklega miðaðar að starfandi kennurum á öllum skólastigum sem og kennaranemum.

Þátttakendur geta mætt með umfjöllunarefni sem þeir brenna fyrir eða hafa áhuga á, en einng hefur verið vinsælt að koma með „vandamál“ og fá aðstoð við að leysa það.

Þátttakendur eru beðnir um að koma með framlag í búðirnar. Framlög geta verið margbreytileg, t.d. að segja frá kennsluhugmynd, vefsíðu, forriti, smáforriti, námskrárvinnu, varpa fram spurningu eða koma með eitthvað málefni sem þarfnast lausnar.

Ekki er ætlast til að allir komi með framlag. Þátttaka er ókeypis en gert er ráð fyrir virkri þátttöku. Með virkri þátttöku er átt við að ganga á milli stöðva, spjalla og spyrja spurninga. Hér má sjá myndband sem Bjarndís Fjóla Jónsdóttir útbjó eftir eina menntabúð á Menntavísindasviði HÍ.

Samfélagsmiðlar, Upplýsingatækni

eTwinning netráðstefna- Cultural Heritage

Á laugardaginn 20. október tók ég þátt í netráðstefnu á vegum eTwinning. Í ár er þema eTwinning Cultural Heritage eða menningararfurinn. Á ráðstefnunni voru kynnt fjölmörg eTwinning verkefni sem öll áttu það sameiginlegt að fjalla á einhvern hátt um menningararfinn. Það var afar áhugavert að hlusta á þá sem töluðu og mér fannst með ólíkindum hversu fjölbreytt verkefnin voru og hugsaði oft til þess hversu frábært það væri að geta sem kennari myndað samstarf við aðra kennara úti í veröldinni. Ég fékk margar góðar hugmyndir sem ég held að geti nýst mér í starfi mínu sem leikskólakennari. Nokkrir kennarar voru búnir að setja upp verkefni sem þeir vilja vinna að á þessu skólaári, en vantaði samstarfsfélaga. Ég reyndi eftir fremsta megni að deila efni ráðstefnunnar jafnóðum með íslenskum kennurum. Gerði það bæði á Facebook og Twitter undir myllumerkjunum #etwinning og #menntaspjall. Vonandi hefur einhver íslenskur kennari áhuga á að bætast í hópinn. Hér fyrir neðan er ljósmynd sem vakið hefur hvað mesta athygli, en þetta er endurnýting á CD diskum. Þarna er ofið utanum diskana með litríku garni, hugmynd sem kom frá Afríku.

Samfélagsmiðlar, Upplýsingatækni

Nú geta foreldrar fylgst með spjaldtölvunotkun barnanna

Nýjastu uppfærslu IOS 12 í Apple tækjum fylgja nokkrar innbyggðar aðgerðir sem vert er að benda foreldrum á. Þessar aðgerðir eru hannaðar til þess að hjálpa þér að einbeita þér, takmarka truflun, fylgjast með notkun IOS tækisins og fá betri skilning á því hvernig þú notar tímann þinn allan daginn. Svo er upplagt líka að kynna sér þessa síðu þar sem margar áhugaverðar ábendingar og trix er að finna.

Samfélagsmiðlar, Upplýsingatækni

Flipgrid ókeypis

Flipgrid er vefsvæði og líka smáforrit þar sem hægt er að taka upp stutt myndbönd um efni eða efnisþætti sem fjallað er um hverju sinni. Það sameinar kosti samfélagsmiðla við nám og kennslu. Gæta þarf þess að setja efnið fram á skipulegan hátt þannig að auðvelt sé fyrir nemendur að rata um Flipgrid-ið og líka einfalt fyrir kennarann sjálfan í úrvinnslu. Hægt er að stilla verkefni og skilum nemenda þannig að nemendur geti svarað hver öðrum og gefið hver öðrum endurgjafir eða spurt spurninga. Hægt er að fylgja framleiðendum eftir á Twitter til þess að fá hugmyndir um notkun þess, en nokkuð margir kennarar hér á landi eru farnir að vinna í samvinnu við heimilin að nýta Flipgrid við skil verkefna og heimalesturs. Hér er hægt að horfa á kennslumyndband um notkun á Flipgrid.

Samfélagsmiðlar, Upplýsingatækni

Vorblót og menntabúðir

Síðdegis í dag tókum við dóttir mín Sunneva Svavarsdóttir (leikskólakennaranemi) og synir hennar þátt í menntabúðum. Þar voru þau að kynna ýmislegt sem frístund, leik- og grunnskólar í Reykjavík geta fengið lánað hjá Mixtúru og skilað aftur. Þetta er alveg til fyrirmyndar hjá þeim á Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur. Þarna geta frístundir, leik- og grunnskólar fengið lánaða kassa með margskonar tæknibúnaði í til þess að prófa í ákveðinn tíma. Stofnanirnar geta svo fjárfest í búnaðinum sjálfir ef þeim líkar og sjá notagildið eða þá fengið hann aftur lánaðan þegar þörf er á. Ég hvet alla kennara til þess að heimsækja Mixtúru og kynna sér hvað er í boði hjá þeim. Þar er t.d. hægt að fara á margskonar námskeið í notkun á upplýsingatækni og fræðast um eitt og annað sem tengist upplýsingatækni.

Ég sjálf var á meðan þau léku sér með tæknidótið að kynna nýja námsvefinn minn Fikt. Var honum mjög vel tekið og skapaðist mikil umræða um eitt og annað sem er á vefnum. Ég hef nú sent út á samfélagsmiðla tilkynningu um tilurð hans og óskað eftir ábendinum um það sem betur má fara. Ég vil gjarnan að fólk sendi mér línu á netfangið fjolathorvalds@gmail.com

 

Samfélagsmiðlar, Upplýsingatækni

Búa til kvikmynd í Google Photos

Hún Ingileif Ástvaldsdóttir skólastjóri í Þelamerkurskóla er hafsjór af fróðleik í upplýsingatækni. Ég hef áður bent á vefinn hennar, Bara byrja, en í dag er sérlega góð ástæða til þess að heimsækja vefinn hennar. Þar sem hún er að kenna hvernig á að búa til einföld myndbönd með ljósmyndum og myndskeiðum sem eru í Google Photos. Eins og önnur verkfæri Google þá er hægt að vinna með öðrum að því að búa til myndband. Ég hef nokkuð notað Google Photos til þess að safna saman myndum sem fólk tekur af viðburðum. Þá bý ég til ljósmyndasafn og óska eftir því að gestir viðburðarins setji myndir þangað inn. Nú kann ég að búa til skemmtilegt myndband úr þeim myndum sem safnast og get þá komið myndbandinu á heimasíðuna eða á samfélagsmiðla.

 

Samfélagsmiðlar

Samfélagsmiðlar

Í dag eru langflestir kennarar þátttakendur á einhverjum af þeim samfélagsmiðlasíðum sem í boði eru.

Undanfarin fimm ár hefur átt sér stað bylting í notkun samfélagsmiðla til starfsþróunar kennara. Margir hópar hafa myndast á Fésbók utan um áhugamál, sérgrein, skólastig kennara o.fl.. Þá hefur Twitter í síauknum mæli verið nýttur til samræðu á meðal kennara og miðlunar á áhugaverðu efni sem að mati kennara á erindi til annarra kennara. Pinterest er að verða sívinsælla og þá einkum á meðal kvenna og hafa kennarar einnig nýtt sér þann vettvang til þess að safna saman áhugaverðu efni sem gæti nýst kennurum til starfsþóunar og til kennslu.