Samspil 2018, Upplýsingatækni

#menntaspjall

Í morgun tók ég þátt í #menntaspjall (i) sem var undir stjórn Björns Gunnlaugssonar (@bjorngunnlaugs) og Álfhildar Leifsdóttur (@AlfhildurL). Þau höfðu það að markmiði að vekja athygli á átakinu #snjallirnemendur myllumerkinu á Twitter (sjá nánar https://www.facebook.com/groups/813050209064892/). Undanfarið hefur verið töluverð umræða um snjalltæki nemenda og áhrif þeirra á náms- og félagslegt umhverfi þeirra. Hafa sumir gengið svo langt að banna þau alfarið innan skóla. Öðrum finnst að þar sé litið framhjá jákvæðum áhrifum á nám og kennslu. Með átakinu #snjallirnemendur er ætlunin að vekja sérstaklega athygli á hversu snjalla nemendur við eigum í skólunum og jákvæðar hliðar snjalltækja- og tækninotkunar sem má sjá hjá þeim, bæði innan og utan skóla.

Það varð góð og gagnleg umræða um málefnið í morgun og hvet ég alla til þess að skoða samantekt umræðunnar hér. 

Samfélagsmiðlar, Samspil 2018, Upplýsingatækni

Samspil 2018

Í gær hófst formlega Samspil 2018. Samspil 2018 er starfsþróunarátak þar sem blandast saman fræðsla, samstarf og samnýting þekkingar og reynslu þeirra sem starfa í skólum í skemmtilegu og aðgengilegu námsumhverfi. Að þessu átaki standa Menntamiðja, Samstarfsráð um starfsþróun kennara og skólastjórnenda og stýrihópur um úttekt á menntun fyrir alla. Einnig koma að verkefninu fjöldi sérfræðinga, fræðimanna og reynslubolta úr skólum og víðar.
Fræðslan fer að mestu fram á netinu og þátttakendur fá að kynnast því hvernig samfélagsmiðlar og tengslanet stuðla að uppbyggilegri og áframhaldandi starfsþróun. Síðdegis í gær var fræðslufundur um Samspil 2018 haldinn á Menntavísindasviði HÍ og mætti ég þangað til þess að vera með frá upphafi. Samspil 2018 er sjálfstætt framhald af Samspil 2015 sem ég tók þátt í og hafði bæði gagn og gaman af. Markmið Samspils 2018 er að þátttakendur fræðist um starfsþróun og nýjar kennsluaðferðir og námstækni fyrir fjölbreytta nemendahópa um leið og þeir taka þátt í að byggja upp öflug og kvik starfssamfélög skólafólks á netinu og í raunheimum. Hægt verður að skrá sig í Samspil 2018 hvenær sem er og taka eins mikið þátt og hver og einn vill. Dagskráin verður kynnt á næstu dögum og borgar sig að vera vel upplýstur bæði inni í Fésbókarhóp Samspil 2018 og svo á Twitter undir millumerkinu #samspil2018 
Í gær kynnti ég fyrir þátttakendum hvar hér á síðunni má finna upplýsingar um hvernig nota á samfélagsmiðla, Fésbók, Twitter, Tweetdeck og Pinterest og vona ég að það efni komi að notum. Ég hlakka til að læra og deila með öðrum kennurum á Samspil 2018.