Sérkennsla, Upplýsingatækni

Flipgrid

Í dag var ég á námskeiði í notkun Flipgrid hjá vinkonu minni henni Ingileif. Hún, Lína og Karen Sif ömmustelpa Ingileifar fræddu okkur um möguleika í notkun á Flipgrid. Flipgrid er afskaplega hentugt tæki til þess t.d. að láta börn lesa fyrir sig. Sjá kennslumyndband. Hægt er að safna saman í eina möppu upplestrum og ég sé marga möguleika með þessu forriti í sérkennslu. Ég sé fyrir mér að hægt væri að búa til „grid“ til þess að foreldrar barna geti tekið upp frásagnir barnanna um t.d. bók sem foreldrið hefur lesið. Ég hef verið að æfa mig með ömmu stráknum mínum. Hann hefur lesið inn nokkur sýnishorn fyrir mig. Ég hef í hyggju að kynna Flipgrid fyrir sérkennslustjórum í leikskólum því ég sé fyrir mér þarna gott tækifæri til aukinna samskipta við foreldra þeirra barna sem við erum að styðja í leikskólanum. Flipgrid er þannig að þú útbýrð „gridin“ á vefsíðunni þeirra, en þátttakendur nota síðan smáforrit í snjalltækjum til þess að vinna viðfangsefnin. Þetta er í raun alveg sára einfalt og það sem best er að þetta er alveg lokað þannig að persónuvernd samþykkir þennan samskiptamáta. Ingileif útbjó fésbókarhóp sem heitir Spurt og svarað um Flipgrid og hvet ég alla til þessa kynna sér Flipgrid.

Sérkennsla, Sköpun, Upplýsingatækni

Puppet Pals

Þessa dagana eru eldri börnin sem mæta snemma á morgnanna að æfa sig í smáforritinu Puppet Pals. Þetta er afar skemmtilegt forrit þar sem börnin eru að skapa sinn eigin söguheim og tjá sig með brúðum. Brúðurnar eru tilbúnar, en þau hafa líka lært að búa til sínar eigin og setja líka sjálf sig inn í forritið og tala fyrir sig í ýmsum aðstæðum. Hægt er að fræðast meira um forritið og læra á það hér á Fikt. 
Börnin eru að búa til sitt eigið ævintýri út þessa viku og síðan eiga þau að fá tækifæri til þess að sýna hinum börnunum endanlegu útgáfuna. Við setjum ævintýrin á YouTube svo foreldrar geta notið líka.

Mosaic44b0f104c1106e8307508901ddeebc31f8fa85e8

Sérkennsla, Upplýsingatækni

Myndir lifna við

Það kemur fyrir að hvetja þarf sérstaklega einstaka börn í leikskólanum til þess að efla fínhreyfingar sínar, þau eru t.d. ekki alveg búin að ná aldurssvarandi gripi um skriffæri. Í morgun ákvað ég að nota upplýsingatæknina sem hvata til þess að fá nokkur börn til þess að lita fyrir mig myndir. Börnin voru afar misjafnlega á vegi stödd hvað varðar fínhreyfifærni, en það kom ekki að sök því öll fengu þau að sjá myndirnar sínar lifna við með aðstoð smáforritsins Quiver (ókeypis) og það fannst þeim nú ekki leiðinlegt. Það er alltaf jafngaman fyrir mig sem kennara að fylgjast með undrun barnanna þegar fuglinn þeirra, bíllinn og fl. fara á hreyfingu. Hér á heimasíðu Quiver er hægt að prenta út myndir til þess að lita.

Sérkennsla, Upplýsingatækni

eTwinning viðurkenning

Ég hef áður sagt frá því hér á síðunni að ég fór til Finnlands fyrir ári síðan á vinnustofu á vegum eTwinning. Þar var lögð áhersla á forritun í kennslu leikskólabarna. Í vinnustofunni stofnuðum við fimm kennarar frá þremur löndum verkefni sem við unnum að á vorönninni, frá janúar til maí 2018. Verkefnið fékk heitið Brave children learning to code. Eins og alltaf var sérlega ánægjulegt að taka þátt í þessu eTwinningverkefni. Ég gerði hlé á þátttöku minni í eTvinningverkefnum á meðan að ég var að vinna fyrir leikskólakennara, en ég er semsagt komin á fullt í erlent samstarf núna. Í gær fengum við ég og börnin í Álfaheiði viðurkenningu frá eTwinnig svokallað gæðamerki fyrir þátttöku okkar í verkefninu. Það voru þrír leikskólar á Ítalíu og einn í Litháen sem voru þátttakendur auk okkar. Markmið verkefnisins var að kenna börnunum að forrita (e. code) og vinna í gegnum listir, landafræði, læsi, daglegt starf, náttúru, hátíðir og fleira. Við kynntum einnig fyrir börnunum lífið í mismunandi löndum, menningu og áhugaverða staði. Við lögðum áherslu á skapandi vinnu á margvíslegan hátt.

Sérkennsla, Upplýsingatækni

Fikt námsvefurinn kynntur

Í morgun fór ég á fund með sérkennslustjórum í Breiðholti. Bergljót Guðmundsdóttir (Systa) vinkona mín og sérkennsluráðgjafi í Breiðholtinu bað mig um að koma og ræða um upplýsingatækni í leikskólastarfi við sérkennslustjórana. Þar sem ég var ekki alveg viss um það hvað fólk vildi heyra ákvað ég að leyfa þeim að velja um nokkur viðfangsefni. Til þess notaði ég Mentimeter sem er frábært vefverkfæri til þess að útbúa gagnvirkar kynningar.
Það var ánægjulegt fyrir mig að sérkennslustjórarnir höfðu mestan áhuga á að fá kynningu á Fikt námsvefnum mínum.

 

 

 

 

 

 

Hér fyrir neðan má sjá mynd frá fundi okkar sem haldinn var í Gerðubergi. Ég fékk margar góðar hugmyndir við það að skoða vefinn með sérkennslustjórunum. Ég held að ég muni vinna að því fljótlega að setja inn meira efni sem tengist upplýsingatækni í sérkennslu. Ég á fullt af efni, en svo get ég líka vísað mikið á efni sem til er á Sérkennslutorginu. Efni sem sérkennarar margir vita ekki um.