Upplýsingatækni, Útikennsla

Upplýsingatækni með ungum börnum

Ég hef verið svo heppin í nokkur ár að fá að koma inn á námskeiðið Umhverfi sem uppspretta náms hjá þeim Kristínu Norðdahl og Guðbjörgu Pálsdóttur. Mitt hlutverk er að segja frá þeim möguleikum sem upplýsingatæknin hefur í leikskólastarfi. Ég legg áherslu á náttúrufræði, útikennslu, stærðfræði og forritun með ungum börnum. Það er alltaf jafn gaman að hitta verðandi leikskólakennara, áhugasamari nemendur fær maður ekki. Það er líka svo gaman að verða vitni að svona „AHA“ augnablikum þegar fólk uppgötvar hvað hægt er að gera með upplýsingatækni með þetta ungum börnum. Í dag bað ég dóttur mína Sunnevu Svavarsdóttur um að koma með mér, en hún er þessar vikurnar að aðstoða við þróunarverkefni í leikskólanum Reynisholti í Grafarholti. Verkefni sem snýst um að nýta upplýsingatækni í námi og kennslu yngstu barnanna í leikskólanum. Sunneva er með mikið af tæknibúnaði í láni frá Mixtúru og er að kynna fyrir starfsfólki leikskólans. Það kom nemunum í dag verulega á óvart hvað það til er mikið af allskonar forritunarleikföngum sem hægt er að nota með ungum börnum.

Upplýsingatækni, Útikennsla

Upplýsingatækni í Furugrund

Þvílíkt líf og fjör í morgun þegar boðið var upp á smiðjuvinnu í leikskólanum Furugrund kl. 9-10:30. Boðið var upp á átta smiðjur, tveir kennarar voru með hverja smiðju fyrir sig og börnin fóru á milli 3-4 saman, þannig fór hvert og eitt barn í þrjár smiðjur á eldri deildunum. Sjö barna hópur pilta fór í ratleik í Fossvogi með aðstoða QR kvóða líkt og stúlkurnar fóru í síðustu viku. Á yngri deildunum var boðið upp á jóga og núvitund með 2-3 ára börnum. Á eldri deildunum var boðið upp á OSMO í fernskonar viðfangsefnum, Roboat Mouse í þremur útgáfum, hreyfimyndagerð með Stop MotionMakey Makey, Chatter Pix smáforritið og Let‘s go Code. Gestirnir sem öll eru leikskólakennarar voru afar áhugasamir og fannst það stórkostlegt hversu fjölbreytt verkefni var hægt að bjóða börnunum upp á. Gestirnir sem fóru í ratleikinn í Fossvogi voru líka mjög ánægðir og höfðu ekki upplifað slíkt áður. Allir gestirnir sem voru inni í leikskólanum höfðu tækifæri á að horfa einnig á yngri börnin í núvitund og jóga. Það fannst þeim stórkostlegt. Börnin, já börnin þau skemmtu sér konunglega og höfðu orð á því hversu gaman hefði verið og sum þeirra voru sérlega stolt af eigin afrekum, sérstaklega í hreyfimyndagerðinni. Hér er ein hreyfimynd Risaeðluheimilið og önnur sem heitir SMASH!

Útikennsla

Ratleikur í Fossvogi

Í dag prófuðum við Karólína og Lovísa Rut nýjan ratleik í Fossvogi. Við vorum m.a. að undirbúa ERASMUS+ fund sem verður í næstu viku í Furugrund. Einn liðurinn af mörgum verður að fara með börn og gesti í ratleik í Fossvogi. Vegna ungs aldurs barnanna reyndum við að gera ratleikinn þannig að þau gætu sem mest gert sjálf. Útbjó ég kort með aðstoð Google maps og skrifaði inn á það tölustafi þar sem börnin áttu að finna spjöld með QR kóðum. Sem útbúnir voru með aðstoð QR Code Generator. Með því að skanna QR kóðana fengu börnin verkefni til að leysa á hverjum stað fyrir sig og var það hlutverk kennaranna að lesa skilaboðin sem á bak við kóðana voru. Þetta voru eftirfarandi verkefni; gera vatnstilraun, byggja 2 og 2 saman hús og taka af því ljósmynd með iPadinum, hvíla sig og segja brandara (fílabrandarar fylgdu með í bakpokanum) fylla 2 flöskur af vatni og svo í lokinn að grilla sykurpúða og nota svo vatnið í flöskunum til þess að slökkva eldinn. Allt sem til þurfti var í bakpokanum. Ratleikurinn mátti ekki taka lengri tíma en 90 mínútur og stóðst það alveg. Við vorum ekkert að flýta okkur og vorum um 80 mínútur í leiknum. Viðfangsefnin voru mátulega erfið, en erfiðasta verkefnið reyndist vera það sem við héldum í upphafi, en það var að fylla flöskurnar að vatni. Ratleikurinn reyndist hin mesta skemmtun og voru allir þátttakendur, sem í þetta sinn voru átta stúlkur, afar ánægðir í lok leiksins. Það fengu allir að vera í hlutverki við að skanna QR kvóðana, halda á kortinu og svo frv. Gaman var að heyra stúlkurnar minna hvor aðra á að þetta væri samvinna nokkrum sinnum í leiknum. Við vonum að ratleikurinn geti komið að gagni fyrir fleiri skóla í nágrenni dalsins. Hér fyrir neðan má sjá myndir sem ég tók á meðan á ratleiknum stóð.