Greinargerð

Í Greinargerð sem vefnum fylgir er fjallað um bakgrunn verkefnisins, fræðilegt samhengi, stöðu upplýsingatækni í skólastarfi og reynslu höfundar, hugmyndir og vinnu sem að baki vefnum liggur. Greint er frá megintilgangi með efnisgerðinni og helstu markmiðum sem stýra efnisvali og áherslum. Stuðst var við og bent á nánast allar helstu rannsóknir og þróunarverkefni sem unnið hefur verið að hér á landi í tengslum við innleiðingu á spjaldtölvum í skólastarfi á leikskólastigi og yngsta aldursstigi grunnskóla. Höfundur miðlar líka af eigin þekkingu og persónulegri reynslu af áralangri notkun á upplýsingatækni í leikskólastarfi og kemur með tillögur um það á hvaða hátt hægt er að nota upplýsingatækni í daglegu skólastarfi með börnum.

Höfundur lítur ekki svo á að gerð námsvefsins sé lokið, hann á eftir að halda áfram að þróast og vaxa að innihaldi. Það er mikil þróun í tækninotkun almennt og áhuginn á tækninni mikill og vaxandi. Höfundur hefur háleit markmið og metnað til þess að fylgja námsvefnum eftir í framtíðinni. Vonandi verður hann nýttur af kennurum til þess að þeir auki færni sína og þá um leið kjark sinn til þess að takast á við notkun á upplýsingatækni í skólastarfi.