Kennsluáætlun

Þegar verið er að vinna með ungum börnum í smáforritinu Puppet Pals þarf að útbúa kennsluáætlun. Það er reyndar mikilvægt í allri kennslu og þar með talið þegar börnum er kennd upplýsingatækni.
Við gerð kennsluáætlunar byrjum við á því að skoða hvernig við viljum tengja hana við aðalnámskrá.
Í aðalnámskrá er hægt að tengja nám barnanna í þessu smáforriti helst við grunnþættina læsi og sköpun, en vissulega má segja að komið sér inn á alla grunnþættina sex.
Í aðalnámskrá segir að tölvur og stafræn samskiptatæki séu orðinn ómissandi þáttur í daglegu lífi fólks og sjálfsögð verkfæri í skólastarfi. Þar skiptir það höfuðmáli að nota tölvurnar á fjölbreyttan hátt.  Börn og kennarar þurfa því ekki að binda sig við prentmálið heldur býður tölvutæknin upp á að þeir noti fleiri mál við nám og kennslu.
Meginmarkmið læsis er að börnin séu virkir þátttakendur í að umskapa og umskrifa heiminn með því að skapa eigin merkingu og bregðast á persónulegan og skapandi hátt við því sem þeir lesa með hjálp þeirra miðla og tækni sem völ er á. Leikur er mikilvæg námsaðferð og opnar víddir þar sem sköpunargleði barna getur notið sín. Hamingja og gleði liggja í því að finna hæfileikum sínum farveg og fá að njóta sín sem einstaklingur og hluti af heild.
Í aðalnámskrá segir að sköpun er að uppgötva, njóta, örva forvitni og áhuga, virkja ímyndunarafl og leika sér með möguleika. Glíman við viðfangsefnið og það að finna lausn getur verið umbun sköpunarinnar í sjálfu sér.
Meginmarkmið kennsluáætlunar í notkun smáforritsins Puppet Pals eru að:

  • eiga jákvæð og uppbyggileg samskipti í barnahópnum,
  • endurskapa upplifun sína og reynslu í leik og skapandi starfi,
  • tjá sig með fjölbreyttum hætti og með ólíkum efniviði,
  • kynnast tungumálinu og möguleikum þess,
  • njóta þess að hlusta á og semja sögur, ljóð, þulur og ævintýri,
  • þróa læsi í víðum skilningi,
  • öðlast skilning á að ritað mál og tákn hafi merkingu,
  • deila skoðunum sínum og hugmyndum,
  • nýta ólíkar leiðir og margvíslega tækni til að nálgast upplýsingar og setja fram hugmyndir sínar,
  • velta vöngum yfir eigin samfélagi og menningu og menningu annarra þjóða.

Heimild: Aðalnámskrá leikskóla

Dæmi um tímabil áætlunar. Gert er ráð fyrir að börnin vinni saman 2-3 í um 30-40 mínútur í senn og æfi sig síðan þess á milli eftir vild heima og í leikskólanum.

​1 kennslustund
Fyrsta kynning á Puppet Pals. Börnin læra á helstu aðgerðir í smáforritinu
Börnin æfa sig frjálst heima og í leikskólanum

2 kennslustund
Börnin læra að setja sig sjálf inn í forritið og búa til einfaldan bakgrunn.
Börnin æfa sig frjálst heima og í leikskólanum.

3 kennslustund
Börnin semja sögu og ákveða útlit hennar með söguborði.
Börnin æfa sig frjálst heima og í leikskólanum.

4 kennslustund
Börnin búa til persónur/leikendur, fylgihluti og bakgrunna og taka ljósmyndir af öllu með spjaldtölvunni.

5 kennslustund
Börnin taka allar myndir inn í forritið Puppet Pals og byrja að taka upp í forritinu. Upptaka þarf að fara fram í hljóðlátu herbergi. Passa þarf upp á bakgrunnshljóð.

6 kennslustund
Börnin halda „bíósýningu“ fyrir öll börnin í leikskólanum. Hægt er að gera það verkefni mjög skemmtilegt t.d. með því börnin útbúi aðgöngumiða og fari á milli deilda til þess að dreifa þeim. Raði upp sætum og hafi dyraverði á sýningarstað. Börnin geta svo valið að halda ræður í upphafi sýningar.