Læsi

Smáforrit sem henta til málörvunar

Ég fæ oft þessa spurningu: „Veistu um einhver sniðug öpp til þess nota til að efla málþroska barna?“

Af fenginni reynslu vil ég segja ykkur að Þetta snýst ekki um að hafa sem flest öpp. Það allra mikilvægasta í þessu sambandi er að einbeita sér að námi barnanna. Hvað viljum við að börnin læri?

Hvar eru börnin stödd? Hvað hentar börnunum okkar?

Hvert og eitt barn er einstakt og þarfir barna eru afar misjafnar. Þetta snýst um gæði og hvernig við ætlum að nýta smáforritin – hvert er markmiðið með notkun þeirra? Það er lykilspurningin. Ætlar þú að efla málskilning, máltjáningu, hlustun, hjóðkerfisvitund, lesskilning barnanna?

Hvert er markmiðið – taktu fyrst ákvörðun um það og skoðaðu svo hvort þú finnur smáforrit sem barnið getur lært þessa þætti af.

Við verðum að passa okkur á því að gleyma okkur ekki í leit að námsefni og það verði markmiðið með notkun spjaldtölvunnar í stað þess að líta á hana sem verkfæri – það að við teljum að því fleiri smáforrit því betri kennsla gengur ekki upp.

Erum við að sækja verkfærið og spyrja svo hvað get ég gert með því en ekki öfugt?

Smáforrit sem koma til greina
Ef þú ert að leita að smáforriti til þess að nota skaltu byrja á því að leita að íslensku appi. Við erum jú að kenna börnunum íslensku. Þvílík gæfa að það skuli vera til hugsjónakonur í hópi talmeinafræðinga sem leggja í það stórvirki að framleiða smáforrit á íslensku. Þrátt fyrir smáan markað og vitandi það að það er ekkert að græða á þessu.

                                    

Lærum og leikum með hljóðin og Froskaleikur
Þetta eru að mínu mati smáforrit sem allir leik- og grunnskólar eiga að hafa í iPödunum sínum. Frábær íslenskt forrit fyrir börn sem undirbýr þau fyrir lestrarnám, eykur orðaforða þeirra og hljóðmyndun. Með þessum frábæru smáforritum læra börnin hin ýmsu orð, hvernig þau eru skrifuð, borin fram og hvað þau þýða. Höfundur er Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur.

Orðagull Nýlega kom út smáforritið Orðagull eftir talmeinafræðingana Ásthildi Bj. Snorradóttur og Bjartey Sigurðardóttur. Orðagull hentar elstu börnum í leikskóla og börnum á yngsta stigi grunnskóla og miðar að því að styrkja orðaforða, vinnsluminni, heyrnræna úrvinnslu og máltjáningu. Skemmtilegt smáforrit sem heldur áhuga barnanna vakandi. Höfundar eru Ásthildur Bj. Snorradóttir og Bjartey Sigurðardóttir talmeinafræðingar.

Bitsboard Pro
Ég kalla þetta „Appið“. Bitsboard Pro er stórkostlegt smáforrit. Hægt er að velja allskonar flokka sem fylgja, eins og t.d. föt, tölustafi, liti o.s.frv. Með þessu frábæra smaforriti læra börnin hin ýmsu orð, hvernig þau eru skrifuð, borin fram og hvað þau þýða. Ég hef notað þetta smáforrit með mjög góðum árangri með börnum með annað móðurmál en íslensku.

Eftir að flokkurinn hefur verið valinn þá er hægt að velja 5 erfiðleikastig eftir því hvað þarf að leggja áherslu á hverju sinni. Tekið er fram að allir þeir flokkar sem fylgja eru á ensku en svo er hægt að þýða þá og ná í fleiri og er nú þegar hægt að ná í þó nokkra á íslensku. Hægt er að aðlaga alla flokkana og erfiðleikastigin eftir þörfum hvers og eins. Mjög sniðugt smáforrit sem hægt er að nota í málörvun, lestri, stafsetningu ofl. Einnig flott að nota það fyrir þá sem eiga erfitt með tjáskipti. Ef maður kýs að þýða flokk þá er einnig hægt að deila honum með öðrum notendum Bitsboard og fer flokkurinn þá inn í svokallað Catalog og þar er hægt að finna líka fleiri flokka sem aðrir hafa þýtt á hinum ýmsu tungumálum og því tilvalið að nota smáforritið í tungumálakennslu.

Orðaflipp
Þetta er íslenskt sköpunarforrit fyrir skáld og rithöfunda framtíðarinnar. Orðaflipp veitir notandanum tækifæri til að hugsa út fyrir boxið, fylla hausinn af hugmyndum, hlæja og skemmta sér. Auk þess að vera öflugt sköpunartól þá bætir Orðaflipp orðaforða og þjálfar málfræði hjá ungum sem öldnum. Orðaflipp er þannig gagnlegt tól fyrir skapandi skrif, byrjendalæsi og almenna íslenskukennslu.

Segulljóð
Afskaplega skemmtilegt app. Það er auðvelt í notkun og það skemmtilega við það er að notandinn getur gefið sér mismunandi forsendur áður en hann fær upp orðin til að vinna með. Í skólastarfi hefur það marga kosti og það má nota það fyrir mjög breiðan aldurshóp.

Mjási
Bráðskemmtileg snertihljóðbók sem fjallar um köttinn Mjása sem hefur týnt fötunum sínum og ratar ekki heim. Við lesningu sögunnar þarf notandi að hjálpa Mjása að yfirstíga smáþrautir sem verða á vegi hans. Ýmsar skemmtilegar persónur koma fyrir í sögunni og hafa þær allar mikil áhrif á framgang mála í þessu skemmtilega ævintýri.

Myndasaga
Hefur að geyma fullt af skemmtilegum myndum af persónum, hlutum og bókstöfum sem krakkar geta raðað upp í bókina sína. Einnig fjöldi mismunandi bakgrunna. Notandi getur búið til myndasögubók með einni eða fleiri blaðsíðum. Í Myndasögu getur notandi einnig æft sig að skrifa orð með fallegum bókstöfum því í hverju þema eru myndir með bókstöfum, tölum og táknum. Þegar sagan er tilbúin er hægt að skoða hana eins og bók inn í forritinu eða vista fyrir iBooks eða önnur bókaforrit til að deila með vinum og fjölskyldu.

Stafirnir okkar
Hér er á ferðinni leikur fyrir spjaldtölvur og snjallsíma fyrir börn á aldrinum 2-5 ára sem eru að læra að þekkja íslensku bókstafina. Leikurinn er heillandi og auðveldur í notkun en hann kynnir íslenska stafrófið fyrir börnum á líflegan og skemmtilegan hátt.

Book Creator
Með Book Creator er hægt setja saman á einfaldan máta gagnvirka rafbók með myndum, texta, hljóð og upptöku. Með þessu smáforriti getur barnið látið ímyndunaraflið blómstra. Hægt er að deila bókinni á einfaldan hátt t.d með pósti eða Dropbox. Með einni snertingu er hægt að lesa bókina í iBooks. Frábært forrit sem ætti að nýta sem allra allra mest í bæði leik- og grunnskóla.

Little Story Creator
Algjörlega mitt uppáhalds-app. Allt umhverfið í forritinu er svo barnvænt að mjög ung börn geta nýtt það. Ég hef verið að leika mér með 2 ára barnabarninu í því og í desember þegar ég var í flugvél með móður mína áttræða kenndi ég henni á forritið og henni fannst það göldrum líkast. Svo þetta er smáforrit sem hentar frá 2 ára og upp úr.

Puppet Pals
Ótrúlega skemmtilegt smáforrit. Í því er hægt að búa til sína eigin leiksýningu með leikurum og bakgrunnum. Börnin geta stjórnað leikurunum með því að draga þá inn á sviðið og út aftir, stækkað leikarana og minnkað. Rúsínan í pylsuendanum er að það er hægt að taka upp hreyfingarnar og hljóðin sem börnin búa til. Með Puppet Pals er hægt að búa til leikmynd með hreyfingum og hljóði á mettíma. Hægt er að velja leikara (jafnvel sjálfan sig) og bakgrunna. Þetta smáforrit ýtir svo sannarlega undir sköpunarkraft barnanna. Hægt er að flytja út myndbandið og nota þær t.d. í Book Creator.

Hér má sjá sýnishorn frá vinnu elstu barnanna í Álfaheiði. Börnin sömdu eigin sögur og bjuggu til alla bakgrunna, persónur og leikendur. Þau léku sjálf og tóku upp. Útkoman var mjög fjölbreytt eins og sjá má hér í þessu myndskeiði.

ChatterPixKids

ChatterPixKids er bráðskemmtilegt ókeypis forrit sem ég hef notað mikið í leikskólanum. Forritið er svo einfalt í notkun að það tekur sekúndur að læra á það. Þegar það er frá eru möguleikarnir endalausir. Börnin geta byrjað á því að taka mynd af sjálfum sér og svo býður forritið upp á að þau myndi munn með því að strjúka eftir skjánum, þegar því er lokið byrtist míkrafónn til þess að tala inn á forritið. Þegar því er lokið er farið á næstu síðu og þar er boðið upp á að skreyta ljósmyndina, setja á sjálfan sig skegg, hatt, gleraugu og fl. Þetta finnst börnunum sérlega skemmtilegt. Þegar börnin eru búin að læra á forritið er upplagt að halda áfram að skapa, t.d. að teikna myndir af hverju sem er og taka mynd og láta hana lifna við með því að tala fyrir hana. Hér má sjá dæmi um skapandi vinnu barna í forritinu.

Að lokum
Undanfarin misseri hefur verið mjög hávær umræða hér á landi um börn og spjaldtölvur. Þau sjónarmið hafa komið fram að foreldrar ungra barna noti þær til þess að kaupa sér frið og þannig noti börn spjaldtölvurnar í of miklum mæli sér til afþreyingar.

Ég hef verið þeirrar skoðunar að það valdi hver er á haldi og ekki sé við spjaldtölvurnar að sakast. Foreldrar og leikskólakennarar hafi það í hendi sér að kenna börnunum að nýta spjaldtölvurnar á skapandi hátt og því er mikilvægt að nota þær í kennslufræðilegum tilgangi, en ekki til afþreyingar.

Gangi ykkur vel!