Samfélagsmiðlar, Upplýsingatækni

eTwinning netráðstefna- Cultural Heritage

Á laugardaginn 20. október tók ég þátt í netráðstefnu á vegum eTwinning. Í ár er þema eTwinning Cultural Heritage eða menningararfurinn. Á ráðstefnunni voru kynnt fjölmörg eTwinning verkefni sem öll áttu það sameiginlegt að fjalla á einhvern hátt um menningararfinn. Það var afar áhugavert að hlusta á þá sem töluðu og mér fannst með ólíkindum hversu fjölbreytt verkefnin voru og hugsaði oft til þess hversu frábært það væri að geta sem kennari myndað samstarf við aðra kennara úti í veröldinni. Ég fékk margar góðar hugmyndir sem ég held að geti nýst mér í starfi mínu sem leikskólakennari. Nokkrir kennarar voru búnir að setja upp verkefni sem þeir vilja vinna að á þessu skólaári, en vantaði samstarfsfélaga. Ég reyndi eftir fremsta megni að deila efni ráðstefnunnar jafnóðum með íslenskum kennurum. Gerði það bæði á Facebook og Twitter undir myllumerkjunum #etwinning og #menntaspjall. Vonandi hefur einhver íslenskur kennari áhuga á að bætast í hópinn. Hér fyrir neðan er ljósmynd sem vakið hefur hvað mesta athygli, en þetta er endurnýting á CD diskum. Þarna er ofið utanum diskana með litríku garni, hugmynd sem kom frá Afríku.

Sérkennsla, Upplýsingatækni

eTwinning viðurkenning

Ég hef áður sagt frá því hér á síðunni að ég fór til Finnlands fyrir ári síðan á vinnustofu á vegum eTwinning. Þar var lögð áhersla á forritun í kennslu leikskólabarna. Í vinnustofunni stofnuðum við fimm kennarar frá þremur löndum verkefni sem við unnum að á vorönninni, frá janúar til maí 2018. Verkefnið fékk heitið Brave children learning to code. Eins og alltaf var sérlega ánægjulegt að taka þátt í þessu eTwinningverkefni. Ég gerði hlé á þátttöku minni í eTvinningverkefnum á meðan að ég var að vinna fyrir leikskólakennara, en ég er semsagt komin á fullt í erlent samstarf núna. Í gær fengum við ég og börnin í Álfaheiði viðurkenningu frá eTwinnig svokallað gæðamerki fyrir þátttöku okkar í verkefninu. Það voru þrír leikskólar á Ítalíu og einn í Litháen sem voru þátttakendur auk okkar. Markmið verkefnisins var að kenna börnunum að forrita (e. code) og vinna í gegnum listir, landafræði, læsi, daglegt starf, náttúru, hátíðir og fleira. Við kynntum einnig fyrir börnunum lífið í mismunandi löndum, menningu og áhugaverða staði. Við lögðum áherslu á skapandi vinnu á margvíslegan hátt.

Upplýsingatækni

Forritunarleikur

Í síðustu viku voru börnin að læra grunnatriði forritunar í þessum leik. Börnin hjálpast að við að koma einu barni á ákveðinn reit til þess að barnið geti fengið sér rúsínu. Kenndar eru skipanirnar fram, aftur, til hliðar, snúa til hægri og vinstri. Þessir snillingar fóru bara létt með þetta, það var helst að hægri og vinstri vafðist fyrir þeim. Leikurinn er eitt af framlögum okkar til eTwinningverkefnisins Brave children learning to code sem við erum í ásamt leikskólum frá Ítalíu og Letlandi.