Sérkennsla, Upplýsingatækni

Flipgrid

Í dag var ég á námskeiði í notkun Flipgrid hjá vinkonu minni henni Ingileif. Hún, Lína og Karen Sif ömmustelpa Ingileifar fræddu okkur um möguleika í notkun á Flipgrid. Flipgrid er afskaplega hentugt tæki til þess t.d. að láta börn lesa fyrir sig. Sjá kennslumyndband. Hægt er að safna saman í eina möppu upplestrum og ég sé marga möguleika með þessu forriti í sérkennslu. Ég sé fyrir mér að hægt væri að búa til „grid“ til þess að foreldrar barna geti tekið upp frásagnir barnanna um t.d. bók sem foreldrið hefur lesið. Ég hef verið að æfa mig með ömmu stráknum mínum. Hann hefur lesið inn nokkur sýnishorn fyrir mig. Ég hef í hyggju að kynna Flipgrid fyrir sérkennslustjórum í leikskólum því ég sé fyrir mér þarna gott tækifæri til aukinna samskipta við foreldra þeirra barna sem við erum að styðja í leikskólanum. Flipgrid er þannig að þú útbýrð „gridin“ á vefsíðunni þeirra, en þátttakendur nota síðan smáforrit í snjalltækjum til þess að vinna viðfangsefnin. Þetta er í raun alveg sára einfalt og það sem best er að þetta er alveg lokað þannig að persónuvernd samþykkir þennan samskiptamáta. Ingileif útbjó fésbókarhóp sem heitir Spurt og svarað um Flipgrid og hvet ég alla til þessa kynna sér Flipgrid.

Upplýsingatækni

Tæknidagur í leikskólanum Ösp

Föstudaginn 27. apríl s.l. var í annað sinn haldinn tæknidagur í leikskólanum Ösp í Breiðholti. Rakel Magnúsdóttir var leikskólanum innan handar við framkvæmd dagsins, en hún hefur verið ráðgjafi í upplýsingatækni í leikskólanum um hríð. Lögð var áhersla á að allir aldurshópar nytu sín. Dagurinn heppnaðist að sögn Rakelar frábærlega vel og var mæting foreldra framar vonum, einnig mættu gestir frá Skóla og frístundasviði Reykjavíkurborgar, talmeinafræðingar og starfsmenn frá öðrum leikskólum í hverfinu. Hægt er að fræðast um daginn í fréttabréfi sem útbúið var af þessu tilefni auk þess sem hægt er að sjá hvaða smáforrit voru kynnt. m.a. til málörvunar, stærðfræði og svo tæknileikföng sem fullorðnir og börn léku sér með. Þess má geta að tæknileikföngin voru flest fengin að láni hjá Mixtúru, en þar geta leik- og grunnskólar fengið lánuð ýmis námsgögn í upplýsingatækni. Til hamingju með þetta allt saman Rakel og starfsfólk í leikskólanum Ösp í Breiðholti. Hér fyrir neðan er ljósmynd sem Rakel tók á tæknideginum í leikskólanum Ösp.