Upplýsingatækni

Vatnsendaskóli

Það var mjög fjölmennt á viðburðinum #kopmennt Menntabúðum í Vatnsendaskóla núna síðdegis. Ég hefði gjarnan viljað hitta leikskólakennara þarna, en þeir eru því miður enn við störf í leikskólanum þegar #kopmennt hófst kl. 15. Ég kynnti námsvefinn minn Fikt, fékk mér kaffi og ávexti og spjallaði við kollega mína úr ýmsum grunnskólum Kópavogs, Garðarbæjar og Breiðholts. Svo gafst mér tækifæri á að líta inn í unglingadeildina og þar er heldur betur búið að aðlaga skólastofur að breyttum kennsluháttum. Mjög notalegt hjá unglingunum á Vatnsenda.

Samfélagsmiðlar, Upplýsingatækni

Menntabúðir

Í næstu viku verða bara haldnar menntabúðir dag eftir dag. Mánudaginn 29. október kl. 15 verða haldnar menntabúðir #Kópmennt í Vatnsendaskóla í Kópavogi. Þar ætla ég m.a. að kynna Fikt námsvefinn minn. Það er í fyrsta sinn sem ég kynni hann á heimavelli og vona ég að leikskólakennarar láti sjá sig. Hingað til hafa þeir ekki mætt mikið á #Kópmennt, en það má vera að tímasetning menntabúðanna hennti illa fyrir þá.
Þriðjudaginn 30. október kl. 16:15 á Menntavísindasviði HÍ verða haldnar menntabúðir á vegum Upplýsingatæknitorgs, Menntavísindasviðs HÍ, RannUm, Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og Skrifstofu fræðslu- og frístundaþjónustu Hafnarfjarðar. Vel má vera að ég taki þátt í þeim menntabúðum líka, en þá með eitthvað annað viðfangsefni.

Menntabúðir (e. EduCamp) er starfsþróun á jafningjagrundvelli. Aðferðin byggir á óformlegri jafningjafræðslu sem stuðlar að aukinni umræðu á milli skólastiga sem og eflingu tengslanets kennara. Þátttakendur miðla af eigin reynslu og þekkingu og afla sér fróðleiks frá öðrum. Menntabúðir eru opnar öllum en sérstaklega miðaðar að starfandi kennurum á öllum skólastigum sem og kennaranemum.

Þátttakendur geta mætt með umfjöllunarefni sem þeir brenna fyrir eða hafa áhuga á, en einng hefur verið vinsælt að koma með „vandamál“ og fá aðstoð við að leysa það.

Þátttakendur eru beðnir um að koma með framlag í búðirnar. Framlög geta verið margbreytileg, t.d. að segja frá kennsluhugmynd, vefsíðu, forriti, smáforriti, námskrárvinnu, varpa fram spurningu eða koma með eitthvað málefni sem þarfnast lausnar.

Ekki er ætlast til að allir komi með framlag. Þátttaka er ókeypis en gert er ráð fyrir virkri þátttöku. Með virkri þátttöku er átt við að ganga á milli stöðva, spjalla og spyrja spurninga. Hér má sjá myndband sem Bjarndís Fjóla Jónsdóttir útbjó eftir eina menntabúð á Menntavísindasviði HÍ.

Samfélagsmiðlar, Upplýsingatækni

Vorblót og menntabúðir

Síðdegis í dag tókum við dóttir mín Sunneva Svavarsdóttir (leikskólakennaranemi) og synir hennar þátt í menntabúðum. Þar voru þau að kynna ýmislegt sem frístund, leik- og grunnskólar í Reykjavík geta fengið lánað hjá Mixtúru og skilað aftur. Þetta er alveg til fyrirmyndar hjá þeim á Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur. Þarna geta frístundir, leik- og grunnskólar fengið lánaða kassa með margskonar tæknibúnaði í til þess að prófa í ákveðinn tíma. Stofnanirnar geta svo fjárfest í búnaðinum sjálfir ef þeim líkar og sjá notagildið eða þá fengið hann aftur lánaðan þegar þörf er á. Ég hvet alla kennara til þess að heimsækja Mixtúru og kynna sér hvað er í boði hjá þeim. Þar er t.d. hægt að fara á margskonar námskeið í notkun á upplýsingatækni og fræðast um eitt og annað sem tengist upplýsingatækni.

Ég sjálf var á meðan þau léku sér með tæknidótið að kynna nýja námsvefinn minn Fikt. Var honum mjög vel tekið og skapaðist mikil umræða um eitt og annað sem er á vefnum. Ég hef nú sent út á samfélagsmiðla tilkynningu um tilurð hans og óskað eftir ábendinum um það sem betur má fara. Ég vil gjarnan að fólk sendi mér línu á netfangið fjolathorvalds@gmail.com

 

Upplýsingatækni

Vorblót og menntabúðir í Reykjavík

Fimmtudaginn 26. apríl kl. 15-17:30 verða haldnar menntabúðir í Höfðatorgi, Borgartúni 12-14. 7. hæð í Reykjavík. Þetta verður sannkallað Vorblót menningartengiliða og áhugafólks um list- og verkgreinar og menntabúðir í upplýsingatækni fyrir leikskóla.
Menningartengiliðum og öðrum áhugasömum gestum gefst tækifæri til að fá yfirsýn yfir fjölbreytta möguleika sem þeir geta nýtt í eigin vinnu og miðlað til áhugasamra á sínum starfsvettvangi.
Allar nánari upplýsingar er að finna hér og nauðsynlegt er að skrá sig til blótsins.
Upplýsingatækni

Menntabúðir

Í dag fór ég í Menntabúðir á vegum UT- torgs. Það er ætíð áhugavert að fara í Menntabúð hjá þeim. Menntabúðir er samkoma þar sem fólk kemur saman til þess að miðla af eigin reynslu og þekkingu og afla sér fróðleiks frá öðrum þátttakendum. Þátttakendur eru í aðalhlutverki í Menntabúðum. Saman takast þeir á við áskoranir og málefni sem eru ákveðin af þátttakendum sjálfum og eru knúin áfram af markmiðum og þemum dagsins.

Megin markmið Menntabúðanna er að:

  • skapa jafningjaumhverfi þar sem miðlun þekkingar og reynslu á sér stað
  • veita þátttakendum tækifæri til að læra og prófa sig áfram með ýmis áhugaverð viðfangsefni
  • gefa þátttakendum tækifæri til þess að öðlast ný og efla tengsl við jafningja þannig að samvinna verði í framtíðinni milli fólks

Menntabúðir hafa verið haldnar hér á landi síðan í september 2012, en þá fékk stjórn 3f- Félag um upplýsingatækni og menntun þá hugdettu að hafa menntabúðir í Lágafellsskóla í Mosfellsbæ. Við í stjórn 3f höfðum þá fylgst með því sem var að gerast í starfsþróun kennara hvað varðar upplýsingatækni í öðrum löndum og þar voru svokallaðar EduCamp orðnar mjög vinsælar sérstaklega í USA og í Bretlandi. Þema þessara fyrstu Menntabúða var sérkennsla og voru þær haldnar í samstarfi við fagfélög sérkennara.

Í menntabúðinni í dag var margt að skoða og læra eins og sjá má hér. 

Ljósmyndir frá Menntabúðunum í dag.