Twitter

Twitternotkun á meðal kennara hér á landi hefur verið að aukast undanfarin ár jafnt og þétt. Notkun á Twitter er ennþá samt mun minni en t.d. Fésbókar. Á Twitter tístir maður vegna þess að það er hámark hægt að nota 280 stafi, en lengi vel mátti einungis nota 140 stafi í hver skilaboð. Þetta krefst þess að maður verður að vera hnitmiðaður og kjarnyrtur, en það er galli að ekki er hægt að leiðrétta það sem maður hefur sent út og það finnst mörgum ómögulegt. Sérstaklega þeim sem verður það á að gera innsláttarvillur.
Twitter er upplagður fyrir kennara til starfsþróunar. Það þarf aðeins að leggja það á sig að kynnast miðlinum, en Twitter er ekki alveg jafn auðsýnilegur samfélagsmiðill og Fésbókin. Ég hef allavega oft heyrt á kennurum að þeir segjast ekki alveg fatta tilganginn í notkun Twitter, en um leið og kennarar komast upp á lagið verða þeir mjög virkir og nýta hann til tengslamyndunar og til þess að fá upplýsingar um ýmis áhugamál og starf.

# Myllumerki (Hashtag) eða kassamerki
Til þess að gera okkur það auðveldara að finna og tengjast því efni sem við höfum áhuga á er notast við myllumerki eða kassamerki (misjafnt hvaða orð fólk notar). Þá er merkinu smellt fyrir framan orðið sem fólk hefur komið sér saman um að nota í umræðum eða til merkingar ákveðnu efni, fréttum, atburðum, ráðstefnum eða áhugamáli svo eitthvað sé nefnt.  Sem dæmi þá nota flestir sem eru að vísa á menntaefni hér á landi myllumerkið #menntaspjall en það merki hefur einnig verið tengt spjalli um skólastarf á Twitter sem kennarar á öllum skólastigum hafa átt saman í nokkur ár.
# Myllumerki hefur í vaxandi mæli verið tekið upp á alþjóðavísu þegar óvæntir atburðir hafa átt sér stað, t.d. ef um náttúruhamfarir, stríð, hryðjuverk og fl. Hér má fræðast meira um #myllumerki (Hashtag) á Wikipedia.

Algeng #myllumerki sem kennarar hér á landi eru að nota og fylgjast með eru: #menntaspjall #kennsla #skólatölvan #skólamál #edtech #ettipad #specialneeds #Dagurleikskolans #EdGateway #edtechteam #kennaradagurinn #forritun #kennarasamband #skolavardan #karlarikennslu #kennarar #rannsóknir #MIEExpert #OneNote #Office365 #MFSTEDU

Algengt er að ráðstefnur og málþing gefi út ákveðið #myllumerki og noti það t.d. með því að bæta ártali aftan við ef um árlegan viðburð er að ræða t.d. #Bett2017 #UTis2017 #natt2017 o.s.frv.

@ notkun

Allir sem skrá sig á Twitter fá sjálfkrafa @ merki fyrir framan nafnið sitt, t.d. er mitt @FjolaTh og er hægt að setja þetta tákn inn í textann (tístið) ef maður vill senda ákveðnum aðilum skilaboð. Stundum vill maður svara þeim sem tíst hafa inn í umræðu og þá kemur merki viðkomandi sjálfkrafa inn í tístið og berst viðkomandi.

Fylgja eða Follow
Svo er hægt að fylgja öðrum notendum Twitter eftir með því að velja Follow. Þannig mætti leita uppi þá sem þið teljið t.d. framarlega á einhverju sviði og þið teljið að sé að tísta áhugaverður efni.

Kennslumyndskeið
Við erum svo heppin að Hildur Rudolfsdóttir kennsluráðgjafi í Garðaskóla í Garðabæ hefur útbúið frábær kennslumyndskeið um notkun Twitter.

Fyrstu skrefin
Í þessu myndskeiði er farið yfir innskráningu og helstu valmöguleika notanda á forsíðu sinni („Home“). Myndseiðið er 3 mínútur.

Breyta notendaupplýsingum
Í þessu myndskeiði er sýnt hvernig notendur geta breytt upplýsingum sem birtast á síðu viðkomandi, t.d. prófílmynd, nafni og almennum upplýsingum. Myndskeiðið er 1.30 mínútur.

Hvernig á að tísta
Í þessu myndskeiði er farið yfir þá möguleika og skorður sem Twitter setur okkur varðandi tíst (tweet) og kynnt til sögunnar #-merkið sem einkennir oft umræður á Twitter. Myndskeiðið er 3.30 mínútur.

Tweetdeck
Til eru forrit á Internetinu til þess að auðvelda eftirfyld ákveðinna #myllumerkja. Sjálf nota ég Tweetdeck mikið og þá sérstaklega þegar ég er að taka þátt í umræðum sem fara fram undir ákveðnu #myllumerki t.d. #menntaspjall.  Hér er mjög gott kennslumyndband um notkun Tweetdeck. 

Houtsuite
Svo er líka með því að borga fyrir þjónustuna hægt að nota Houtsuite og fylgjast með öllum samfélagsmiðlum á einum stað. Þar er líka hægt að vinna sér í haginn og láta færslur birtast á ákveðnum tímum og líka samstilla alla miðlan sem maður er að stýra þannig að færslur birtist á sama tíma á þeim öllum. Fólk sem starfar við að koma upplýsingum á framfæri notar þetta forrit mjög mikið. Hér er gott kennslumyndband um notkun Hootsuite.