Vefverkfæri

200 algengustu vefverkfærin sem kennarar nota árið 2017

Top 200 Tools for Learning 2017 er samantekt sem  Jane Hart í Center for Learning & Performance Technologies tekur saman árlega. Hún óskar eftir tilnefningum frá kennurum út um allan heim og í þetta sinn svöruðu 2.174 kennarar og sérfræðingar frá 52 löndum. Þetta er  í 11. sinn sem Jane Hart gerir þessa könnun.

Online Tools for Teaching and Learning!

Þessi síða var hönnuð til að hjálpa kennurum að finna á netinu verkfæri sem þeir gætu notað til að læra á sjálfir og nota í kennslu. Hver síða inniheldur mikið af upplýsingum um tiltekið verkfæri (td verð, notagildi, lýsing á verkfærinu, nýjar leiðir til að nota það til kennslu og náms) til að hjálpa kennurum að meta verkfærið og ákvarða hvort þeir geta notað það.

ICT tool – fjölbreyttur listi

Þessi listi er gerður af Drew Buddie, en hann leitaði upplýsinga hjá fjölda fólks, kennurum og sérfræðingum á sviði upplýsingatækni. Spurt var „Hvaða verkfæri telur þú ómissandi að nota í menntun?“  Listinn er ekki tæmandi.

ClassTool’s

Það þurfa allir kennarar að vita af þessum vef. Þarna er búið að safna saman á einn stað skemmtilegum verkfærum fyrir kennara.

Kraftmiklar kynningar


Ragna Sverrisdóttir hefur tekið saman upplýsingar um framsögn og nokkur vefverkfæri sem eru ætluð til þess að útbúa kynningar. Hún kynnir verkfærin og leiðbeinir um notkun þeirra.

Bitly


Bitly einfaldar manni að útbúa vefslóðir sem maður vill benda fólki á. Oft er það þannig að áhugavert efni á vef hefur svo langa vefslóð (URL) að það tekur fólk langan tíma að skrifa þær, ef það er þá bara hægt. Bitly auðveldar þetta mjög mikið. Það er einfalt að læra á Bitly og hægt að úbúa eigin reikning og flokka vefslóðir á auðveldan hátt.

Tagxedo – Creator


Tagxedu – Creator er skemmtilegt forrit til þess að útbúa orðaskil í rauntíma. Notkunarmöguleikar eru óþrjótandi. Hægt er t.d. að taka afrit af texta og finna út hvaða orð kemur oftast fyrir. Í myndinni hér að ofan spurði ég börnin hvað væri skemmtilegast að gera í leikskólanum.

Sway

Með Sway er hægt að útbúa og miðlað gagnvirkum skýrslum, kynningum, persónulegum sögum og fleira. Sway vefinn er auðvelt að læra á. Vefurinn er þægilegur og með innbyggðri hönnunarvél sem hjálpar þér að búa til faglega hönnun á nokkrum mínútum. Hér má sjá dæmi um það hvernig ég hef notað vefinn til þess að útbúa fréttabréf.

Kahoot


Kahoot er vefsíða þar sem hægt að útbúa allskyns spurningaleiki á auðveldan hátt. Margir geta spilað saman í einu og notuð eru snjalltæki til þess að svara spurningunum. Byrjað er á því að ná sér í notendanafn til að skrá sig inn, það er mjög fljótlega gert. Sá sem stjórnar leiknum (kennarinn) fer inn á síðuna create.kahoot.com og er tengdur við skjávarpa svo að þátttakendur sjái spurningarnar. Þátttakendur (nemendur) fara þá inn á kahoot.it til þess að svara spurningunum. Hægt er að sækja tilbúna spurningaleiki t.d. er hægt að finna nokkuð mikið af stærðfræðileikjum. Börnum jafnt sem fullorðnum finnst gaman að þessum leik.

Padlet


Padlet vefsvæðið er frábært tæki til þess að t.d. safna saman hugmyndum, upplýsingum um ákveðið viðfangsefni og fl. Best að láta hugmyndaflugið ráða því til hvers hægt er að nota þetta svæði. Best er að lýsa þessu vefsvæði eins og korktöflu þar sem hægt er að hengja á allt mögulegt sem manni dettur í hug. Einhver einn tekur það að sér að útbúa svæðið og svo getur hver sem er sett inn hugmynd, eða bara þeim sem boðið sem taka eiga þátt, en hægt er að gera svæðið lokað líka. Þetta svæði er t.d. sniðugt ef það er verið að undirbúa verkefni, þá er hægt að safna hugmyndum á einn stað. Þið veljið Create a Padlet af forsíðu og upp kemur gluggi þar sem hægt er að nefna svæðið og aðlaga útlitið. Ferlið er mjög auðvelt og smellt á Next hnappinn efst í glugganum til þess að klára uppsetningu.
Ég hugsa að notkun á Padlet við undirbúnings þemavinnu muni létta leikskólakennurum mjög vinnuna. Þarna hafa allir sömu upplýsingar á einum stað. Það væri svo gaman að setja afrakstur þemavinnunnar á nýtt Padlet og hafa þannig allt á einum stað. Það myndi auðvelda samræður foreldra og barna  heima. Hér má horfa á kennslumyndband sem Helena Sigurðardóttir útbjó og birtir á vefnum sínum Snjallvefjan.

Big Huge Labs

Fyrstu kynni mín af Big Huge Labs voru í gegnum Flickr myndageymsluna. Ég fór að nota eitt verkfæranna á síðunni Mosaic Maker til þess að koma ljósmyndum á heimasíðu leikskólans Álfaheiði. Þó svo að ég noti ekki í dag ljósmyndir frá Flickr, þá hleð ég inn á vefsvæðið ljósmyndir og læt hana útbúa ljósmynd með nokkrum myndum sem hentar að setja með í frétt á heimasíðu leikskólans. Hér má sjá dæmi um slíka myndanotkun. Þessi þjónusta er ókeypis, en nauðsynlegt að skrá sig inn. Aðrir möguleikar í Big Huge Labs eru ýmist ókeypis eða kosta, t.d. er ókeypis að hlaða inn ljósmyndum og útbúa persónulegt dagatal, en það kostar að láta prenta það og fá sent til Íslands.

Trello

Trello er frítt vefverkfæri sem ég hef notað mikið við undirbúning ráðstefna og málþinga. Það hentar mjög vel til verkefnastjórnunar í litlum og meðalstórum hópum fólks þar sem skipulag og samvinna er mikilvæg. Forritið virkar þannig að úbúnir eru t.d. dálkar um þau viðfangsefni sem vinna þarf að og svo er hægt að gera t.d. dálk sem heitir í vinnslu og svo lokið. Þannig færast viðfangsefnin á milli dálka um leið og unnið er að þeim. Hægt er að tengja inn á t.d. heimasíður og önnur svæði sem hópurinn er að fylgjast með eða að vinna á t.d. google-verkfæri. Í leikskólanum er hægt að nota þetta forrit þegar t.d. er verið að vinna að skipulagningu viðburða á borð við sumarhátið, þá eru öll viðfangsefnin sem tengjast henni sett í dálk og innan hvers viðfangsefnis stendur hver á að leysa verkefnið. Sá sem gerir það færir svo viðfangsefnið yfir í dálkinn lokið. Hér má sjá kennslumyndband.